Haukar fljúga hátt!

Sammi

Árið sem nú er að líða hefur verið okkur Haukum einstaklega gott þar sem saman hefur farið góður árangur íþróttafólks Hauka og verulega aukinn skilningur bæjarfulltrúa Hafnarfjarðar á stuðningi við íþróttastarf Hauka og hefja uppbyggingu Ásvalla að nýju.

Síðast liðið vor var mjög gott fyrir okkur Hauka þar sem lið okkar í handbolta og körfu stóðu sig einstaklega vel í úrslitakeppnum. Toppurinn á þessum góða árangri var glæsilegur og eftirminnilegur Íslandsmeistaratitli meistaraflokks karla í handbolta.

Sumarið var einnig einstaklega gott þar sem meistaraflokkur karla í knattspyrnu hlaðinn ungum uppöldum Haukastrákum stóð sig gríðarlega vel og langt umfram væntingar til liðsins. Miklar vonir eru bundnar við okkar ungu og efnilegu knattspyrnulið í meistaraflokki fyrir komandi sumar.

Haustið hefur einnig verið mjög gott og góð staða meistaraflokkliða Hauka í karla og kvennaflokkum nú í lok árs með því allra besta þekkist í sögu Hauka.
• Meistaraflokkur karla í handbolta og kvenna í körfubolta eru í efstu sætum deilda sinna.
• Okkar ungu meistaraflokkar karla í körfubolta og kvenna í handbolta eru í 3.sæti örfáum stigum frá toppnum. Lið sem hafa verið í uppbyggingu undanfarin ár eru farinn að nálgast toppinn þar sem þau eiga heima.
• Öll meistaraflokkliðin kominn áfram í bikarkeppnum.

Einstaklega glæsileg staða meistaraflokksliða okkar Haukamanna nú vekja vonir um gott vor þar sem stuðningsmenn Hauka þurfa að styðja enn betur á bak við frábær lið okkar.

Á sama tíma er fjöldi iðkennda og leikmanna sem tekið hafa þátt í landsliðsverkefnum á árinu með því allra mesta sem gerst hefur í sögu Hauka. Á gamlársdag mun koma í ljós hvort metið frá í fyrra falli aftur.

Á þessu ári höfum við Haukar fundið fyrir verulega auknum skilningi bæjaryfirvalda á því að bæta aðstöðu Hauka að Ásvöllum sem við fögnum mjög. Nú er nýlokið endurnýjun á gervigrasi á knattspyrnuvellinum sem fyrir nokkru hefði þurft að endurnýja. Snjóbræðslulagnir undir vellinum voru einnig endurnýjaðar auk þess sem öryggissvæði utan með vellinum voru stækkuð til samræmis við núgildandi reglur. Fjöldi sjálfboðaliða Hauka unnu mikið starf við að endurnýjun vallarins og vil ég nota tækifærið og þakka sjálfboðaliðum Hauka fyrir frábært starf við endurnýjun knattspyrnuvallarinns.

Þá sér nú fyrir endan á 10 ára baráttu Hauka fyrir því að reisa nýjan æfingasal (Ólafssal) við Ásvelli. Samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarinns sem nýverið var samþykkt er nú gert ráð fyrir fjármunum til að hefja bygginguna.

Haukar vilja þakka bæjaryfirvöldum fyrir þann velvilja og mikla skilning sem ríkir nú á þörfum félagsins til bættrar aðstöðu. Haukar hlakka til komandi samstarfs um byggingu æfingasalarsins.

Óska öllum Haukamönnum gleðilegra jóla og gleðilegs komandi árs með von um að komandi ár verði enn betra en liðið ár.

Áfram Haukar

Samúel Guðmundsson
Formaður Hauka