Haukar – Fjölnir

Meistaraflokkur karla spilaði sinn 11 leik í 1. deild karla föstudaginn 21. júlí en leikurinn var á móti Fjölni. Leikurinn var á Ásvöllum og var þetta seinni leikur liðanna í sumar en fyrri leikurinn sem var á Fjölnisvelli laugardaginn 20. maí endaði 1 – 1 með marki frá Ediloni.

Fyrir þennan leik voru Haukar í 8. sæti með 9 stig en Fjölnir í 4. sæti með 15 stig. Haukar töpuðu á móti Þrótti í síðustu umferð 2 – 0 á Valbjarnavelli en Fjölnir vann Stjörnuna 2 – 1 á Fjölnisvelli.

Byrjunarlið Hauka í þessum leik var þannig að Amir var í markinu og fyrir framan hann voru Albert sem jafnframt var fyrirliði og með honum í vörninni voru Davíð Ellerts, Óli Jón og Bjarki Jóns. Svo var Hilmar Trausti kominn í liðið og var hann djúpur á miðjunni og á miðjunni sjálfri voru Edilon, Kristján Ómar og á köntunum voru Hilmar Geir og Hilmar Emils og í fremstu víglínu var Jónmundur.

Á fyrstu 20 mínútum leiksins sóttu Fjölnismenn þó nokkuð án þess að skapa nokkra hættu. Fyrsta almenninlega færi Hauka í leiknum var á 33. mínútu en þá áttu Haukar góða skyndisókn og eftir ágætt spil barst boltinn til Hilmars E en skot hans fór yfir. Nokkrum mínútum síðar átti Hilmar E ágæta tilraun eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir á vinstri kantinn en Ögmundur Rúnarsson markmaður Fjölnis varði.

Á 41. mínútu átti Jónmundur góðann sprett upp hægri kantinn og átti fína fyrirgjöf sem fór beint á Hilmar E en skot hans fór yfir. Fátt markvert gerðist á þeim mínútum sem eftir lifðu af fyrrir hálfleik.

Í hálfleik gerðu Haukar eina breytirngu á liði sínu en þá kom Davíð Jóns inn og Óli Jón út. Á 1. mínútu seinni hálfleiks fékk Hilmar E sendingu inn fyrir og skaut góðu skoti en skotið var varið. Á næstu mínútum áttu Fjölnismenn nokkur ágæt færi en það besta átti Ómar Hákonarson en skot hans fór rétt framhjá.

Um miðjann seinni hálfleik gerðu Haukar tvær breytingar á liði sínu þá komu inn Guðjón og Ómar Karl og út fóru Hilmar Geir og Edilon, Guðjón kom þó aðeins fyrr inn á. Þessar breytingar lífguðu upp á sóknarleik Hauka en sóknarleikurinn hafði þó verið mjög líflegur.

Breytingarnar skiluðu árangri á 69. mínútu því þá fékk Ómar Karl snilldar sendingu inn fyrir sem hann tók niður á kassann og lyfti síðan boltanum yfir Ögmund Rúnarsson markmann Fjölnis en hann kom út á móti Ómari og boltinn fór inn og staðan orðin 1 – 0 Haukum í vil en þetta var fyrsta mark Ómars í sumar.

Það sem eftir lifði leiks voru Haukar í við hættulegri í sóknaraðgerðum sínum en voru ekkert að hætta sér of langt fram því þeir ætluðu greinilega að halda markinu sínu hreinu og þar með vinna leikinn. Það tókst hjá Haukum og 1 – 0 sigur Hauka staðreynd og með sigrinum styrktu Haukar sæti sitt í 8. sætinu.

Bestir í liði Hauka voru klárlega Hilmar Trausti og nafni hans Emils. Með tilkomu Hilmars Trausta á miðjuna breyttist miðjuspil Hauka og baráttan á miðjunni var allt önnur svo var Hilmar Emils klárlega hættulegasti sóknarmaður Hauka í leiknum. Einnig áttu Guðjón og Ómar Karl mjög góðar innkomur. Myndir úr leiknum eru hér á síðunni.

Næsti leikur Hauka er á móti Þór á Akureyrarvelli laugardaginn 29. júlí klukkan 16:00 en næsti heimaleikur er á móti HK miðvikudaginn 2. ágúst klukkan 20:00. Áfram Haukar!!!