Haukar fá Val í heimsókn á morgun

Haukar taka á móti Val á morgun í Schenkerhöllinni í 11. umferð Dominosdeildar kvenna.

Eftir erfiða byrjun þá er gengi Hauka farið að lagast og er tilvalið að halda stígandum með „hefndar“ sigri gegn Val á morgun eftir svekkjandi tap gegn þeim fyrr í vetur í Vodafonehöllinni í gríðarlega jöfnum og spennandi leik þar sem Valur vann með sigurkörfu þegar 5 sek. voru eftir af leiknum.

Heimasíðan heyrði í Gunnhildi Gunnarsdóttur um gengið undanfarið og leikinn á morgun:

„Það er klárlega stígandi í liðinu og við getum bara orðið betri með tímanum. Við byrjuðum leikinn á móti Snæfell mjög illa og spiluðum ekki vörn fyrr en í seinni hálfleik. Við vinnum ekki leiki svoleiðis, en við erum að bæta okkur sem lið í öllum leikjum. Núna vantar okkur bara að klára leikina og taka stigin tvo.“

„Við ætlum klárlega að bæta upp fyrir tapið. Þetta var rosalega svekkjandi en fyrri leikurinn við Val var mjög sveiflukenndur og gátu bæði lið unnið. Sigurinn datt Vals megin þá en við ætlum að taka þetta á morgun.“

„Stemmingin í hópnum er mjög góð, það verður væntanlega hörku æfing í kvöld og allar tilbúnar til að leggja allt sitt í leikinn á morgun!“

Við hvetjum alla stuðningsmenn Hauka að fjölmenna á leikinn og styðja okkar lið áfram til sigurs.

ÁFRAM HAUKAR!