Haukar deildarmeistarar á laugardag? Hvað segir Díana?

Díana GuðjónsdóttirEins og fram kom í gær á heimasíðunni eiga Haukastepur á að verða deildarmeistarar í N1 deild kvenna á laugardaginn en þá mætir liðið FH á Ásvöllum. Með sigri tryggja Haukastelpur sér deildarmeistaratitilinn en þær eru nú tveimur stigum á undan Stjörnunni en hafa betur í innbyrðis viðureignum. Það þýðir að nái Stjarnan að jafna Hauka að stigum verða Haukar þó deildarmeistarar. Leikurinn á laugardaginn er næst síðasti leikur Hauka í deildinni.

Við fengum Díönu Guðjónsdóttur í viðtal þar sem við spurðum hana út í árangur liðsins í vetur.

 

Díana segir að Haukastelpur hafi sett sér það markmið í upphafi tímabils að vera á meðal fjögurra efstu liða deildarinnar og fara í hvern leik fyrir sig. Þetta hefur gengið vel og liðið er á þeim stað sem leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum líkar vel að vera. Díana sagði að ástæða þess að liðið er á þeim stað sem það er í dag sé að hópurinn er mjög góður og hefur spilað mjög vel í vetur. Liðið hefur átt þrjá leikmenn í liðum 1. og 2. umferðar mótsins, þær Hönnu Guðrúnu, Ramune og Nínu Björk, og liðið sé því vel sett. Margir leikmenn hafa stígið upp hjá liðinu í vetur þegar á reyndi, m.a. þær Erna, Nína Kristín og Ester. Markmenn liðsins byrjuðu mótið mjög vel en áttu síðan ekki eins góða leiki um mitt mótið. Þær eru þó á uppleið núna og sýndu það vel í síðasta leik. Hópurinn hefur æft vel í vetur og lagt mikið á sig og má segja að liðið sé að uppskera eins og það sáði.

 

Eins og flestir sem hafa fylgst með leikjum Hauka í vetur hefur Hanna Guðrún Stefánsdóttir hreinlega farið á kostum. Hún hefur skorað 194 mörk í deildinni í vetur en það eru 10,2 mörk að meðaltali í leik. Díönu þykir það athyglisvert að þessi frábæri árangur Hönnu Guðrúnar hafi ekki vakið meiri athygli fjölmiðla. Einnig þykir henni athyglisvert að ekki hefur verið minnst á að tveir markahæstu leikmenn deildarinnar eru báðir í Haukum, Hanna Guðrún og Ramune en hún hefur skorað 148 mörk. Þegar Díana er spurð út í það hvort Hanna Guðrún sé besti leikmaður mótsins þá segir hún að henni sé mjög illa við að gera á milli leikmann en segir þó að Haukar hafi tvö bestu leikmenn deildarinnar í sínu liði. Þar á hún við Hönnu Guðrúnu og Ramune.

Að lokum spurðum við Díönu út í úrslitakeppnina sem hefst að lokinni deildarkeppni. Sigri Haukar lið FH á laugardaginn mæta þær að öllum líkindum liði Fram á meðan lið Stjörnunnar og Vals mætast. Díana segir að að liðið stefni á sigur í öllum leikjum og á því er engin undantekning í úrslitakeppninni. Þær stefna þar alla leið.

En eins og áður hefur komið fram mætast Hafnarfjarðarliðin, Haukar og FH, í N1 deild kvenna á laugardaginn og hefst leikurinn klukkan 16:00. Sigri Haukar fagna þær deildarmeistaratitli og það verður seint talið leiðinlegt að fagna titli eftir sigur á nágrannafélagi.