Haukar-Créteil

Þær voru erfiðar mínúturnar þegar leiknum lauk á Ásvöllum í gærkvöldi. Þrátt fyrir 25-24 sigur á Créteil var þungt í mönnum því eins marks sigur þýddi að Evrópuævintýrið var úti.
Strákarnir okkar hikstuðu í byrjun leiks og gestirnir náðu tveggja marka forskoti 1-3. Þá hrökk vélin í gang hjá okkar mönnum og þeir skoruðu sex mörk og breyttu stöðunni í 7-3. Vörn og sókn voru að ganga upp og Birkir að verja vel og áfram héldu þeir og juku forskotið í13-6. Staðan í hálfleik var 15-10 og útlitið mjög gott. Seinni hálfleikur byrjaði allt í lagi, staðan 17-11 en þá fóru gestirnir að saxa á forskotið 17-13, 19-16, 21-18 og 21-19 og fór þá að fara um marga þegar munurinn var kominn í tvö mörk. Strákarnir okkar tóku sig aðeins á og náðu fjögurra marka forskoti 24-20. Þá voru um 10 mínútur eftir og allt gjörsamlega hrundi, sama hvort það var vörnin eða sóknin. Þeir skoruðu ekki nema eitt mark það sem eftir var en Créteil fjögur og eins marks sigur staðreynd. Frakkarnir fögnuðu ógurlega en okkar menn voru niðurbrotnir.
Evrópuævintýrið á enda og vonbrigði okkar Hauka mikil.

Haukar-Créteil

Hó hó hó.
Það verður sungið og trallað, klappað og stappað og þeir rauðu verða á hlaupum út um víðan völl. Svo enginn misskilji neitt þá erum við að tala um leikinn hjá stráknum okkur. Á sunnudagskvöldið kl. 20:00 spila þeir seinni leikinn við franska liðið Créteil í 16-liða úrslitum Evrópukeppni bikarhafa. Fyrri leikurinn var um síðustu helgi í Frakklandi og tapaðist hann með tveimur mörkum. Við vitum að þessi leikur verður mjög erfiður en með góðum leik hjá strákunum okkar og öflugum stuðningi áhorfenda eru miklir möguleikar á sigri og áframhaldandi þátttöku Hauka í Evrópukeppninni.

Við Haukar ætlum að eiga góða stund á Ásvöllum og hvetjum alla unnendur handknattleiks að mæta á Ásvelli með okkur og styðja íslenskan handbolta. Miðasala hefst kl. 14:00 á sunnudaginn á Ásvöllum.