Haukar bikarmeistarar í 10. flokki

Haukar

Strákarnir í 10 flokki urðu í dag bikarmeistarar eftir góðan sigur á Njarðvík 51-45. Haukar voru sterkari aðilinn allan leikinn og eru vel að sigrinum komnir. Strákarnir voru ekki að hitta vel í dag en bættu það upp með góðri baráttu í vörn. Haukar unnu frákastabaráttuna en þeir tóku 51 frákast á móti 34 hjá Njarðvík og þá vörðu Haukar fjölmörg skot Njarðvíkur undir körfunni. 

Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 12-5 um miðjan fyrsta leikhluta þar sem Ívar Barja hafði skorað helming stiganna í byrjun. Fyrsti leikhluti endaði síðan 16-11 fyrir Hauka þar sem Kári Jónsson og Kristján Sverrisson voru byrjaðir að láta einnig til sín taka í stigaskoruninni. Spennustig Haukastrákanna var hins vegar of hátt og voru þeir að missa boltan nokkrum sinnum klaufalega og voru ekki að klára hraðupphlaup sem þeir fengu. 

Annar leikhluti byrjaði ágætlega fyrir Hauka og virtust þeir vera að stinga Njarðvík af og náðu þeir 11 stiga forystu um tíma 23-12 eftir góða 3 stiga körfu frá Kára Jónssyni. Njarðvíkingar náðu á seinni hluta annars leikhluta að saxa verulega á gott forskot Hauka en staðan í hálfleik var 27-26 og hörku leikur í gangi. Haukar voru á þessum tíma að taka ótímabær skot og reyna mikið 3 stiga skot í stað þess að keyra meira upp að körfunni þar sem styrkur Haukanna var greinilega meiri með Kristján Sverrisson mjög sterkan undir körfunni ásamt Hjálmari Stefánssyni og Jens Torfasyni.

Þriðji leikhluti byrjaði vel fyrir Njarðvík og komust þeir í fyrsta og eina skiptið yfir í leiknum í stöðunni 27-30 þar sem skot Hauka voru ekki að detta ofan í. Haukar keyrðu þá upp hraðan og skoruðu 12 stig í röð án þess að Njarðvík gæti svarað fyrir sig og breyttu stöðunni í 39-30. Arnór Bjarki Ívarsson dreyf strákana áfram á þessum kafla og skoraði 6 af þessum 12 stigum auk þess að gefa góðar stoðsendingar sem skiluðum körfum hjá Kristjáni Sverrissyni. Staðan að loknum þriðja leikhluta var síðan 45-34 og virtist sem Haukastrákar væru komnir með leikinn í sínar hendur.

Njarðvíkur strákar neituðu hins vegar að gefast upp og náðu í fjórða leikhluta að minnka muninn niður í 47-45 þegar um 2 og hálf mínúta var til leiksloka. Haukar skorðuðu síðan þau stig sem eftir voru og lönduðu sanngjörnum sigri.

Kristján Leifur Sverrisson var leikslok valinn mikilvægasti leikmaður leiksins en hann skilaði myndalegri tvennu, 14 stigum, 12 fráköstum og 5 vörðum skotum.  Stigahæsti maður Hauka í leiknum var hins vegar Kári Jónsson sem skoraði 18 stig og 12 fráköst. Þá áttu þeir Arnór Bjarki Ívarsson, Ívar Barja og Hjálmar Stefánsson einnig góðan leik fyrir Hauka. Liðsheild Hauka var sterk en 9 leikmenn Hauka komu við sögu í leiknum og börðust allir sem einn vel fyrir liðið. 

TIL HAMINGJU STRÁKAR MEÐ FYRSTA TITILINN Á ÞESSU ÁRI!!