Haukar B aftur komnir á sigurbraut

Haukar B fengu andstæðinga sína úr úrslitaleiknum í fyrra, KR B, í heimsókn í gær í fjórðu umferð B liða deildar karla þar sem þeir sigruðu þá örugglega 86-73.

KR B leiddu leikinn í stöðunni 0-2 og svo aftur 2-4 en eftir það voru Haukar B með örugga forustu út leikinn fyrir utan í stöðunni 20-20. Daníel Örn Árnason og Sveinn Ómar Sveinsson sáu aðallega um stigaskorunina í fyrsta leikhluta, Daníel með 9 stig og Sveinn með 11 stig. Haukar B leiddu 25-22 að loknum fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta keyrðu Haukar B rækilega á KR B og unnu leikhlutann með 15 stigum, staðan í hálfleik því 55-37. Það virtist fara illa í KRinganna því þeir brutu gróflega af sér um miðjan leikhlutann og uppskáru óíþróttamannslega villu þegar þeir brutu á Haraldi Erni Sturlusyni. Það var ekki góð hugmynd því það kveikti aldeilis í honum og skoraði Haraldur 8 stig á næstu fjórum mínútum. Annars var þetta leikhluti mikillar brota, Haukar B með 9 villur og KR B með 7 villur.

Þriðji leikhlutinn var ekki uppá marga fiska hjá Haukum B og skoruðu þeir aðeins 10 stig og með fleiri tapaða bolta en það. KR B unnu leikhlutann með 7 stigum en það kom ekki að sök og Haukar B ennþá yfir 65-54 að lokum þriðja leikhluta. Þrátt fyrir að KR B voru að yfirspila Haukanna í leikhlutanum þá voru þeir ennþá að spila mjög grófan varnarleik og uppskáru sína aðra óíþróttamannsleguvillu.

Jafnt var með liðunum í seinasta leikhlutanum en Haukar B unnu hann með 2 stigum. KR B voru farnir að láta allt fara gífurlega í taugarnar á sér á þessum tímapunkti og uppskáru 2 tæknivillur, þar af önnur þeirra dæmd á bekkinn þar sem að leikmaður sem var farinn útaf með 5 villur gat ekki setið á sér. Þar sem að sigurinn var orðinn vís þegar fyrri tæknivillan var dæmd fóru menn að deila um hver fengi að taka vítin. Emil Örn Sigurðarson var frekastur og fór á vítalínuna þar sem að hann klúðraði fyrra skotinu en setti þó það seinna. Þegar tæknivilla númer tvo var dæmd á KR B þá náði Kristinn Bergmann Eggertsson að suða það í gegn að fá að taka vítin þar sem að hann væri eini stigalausi leikmaður Hauka B. Ekki var lukkan með honum þar sem að hann misnotaði bæði vítin og uppskar ill augu frá liðsfélugum sínum ásamt loforðum að þetta fengi hann aldrei aftur að gera. Heppnin var þó með Kristni því hann átti skot í næstu sókn Hauka B þar sem brotið var á honum og komst hann því aftur á línuna og tókst að bjarga andlitinu með því að setja þau bæði niður og jafnframt að innsigla sigur Hauka B því það voru seinustu stig þeirra í leiknum.

„Það er alltaf gaman að vinna KR en þessum leik verður þó aðallega minnst fyrir skelfilega vítanýtingu. Við settum bara 13 af 28 vítum niður í þessum leik.“

Sagði fyrirliði Hauka að leikslokum. 

Stigahæstir hjá Haukum B voru Sveinn Ómar Sveinson með 16 stig, Daníel Örn Árnason með 14 stig og Haraldur Örn Sturluson með 13 stig.