Haukar úr leik í IE deildinni

 

Haukar voru slegnir út úr úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í gær þegar þeir mættu Íslands- og deildarmeisturum Snæfells í oddaleik um sæti í undanúrslitum. Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn og náðu Haukar flottu starti líkt og í öðrum leiknum. Snæfellingar leiddu með fjórum stigum í hálfleik 46-42.

Í seinni hálfleik dró aðeins úr okkar mönnum og Sæfell komst á lagið. Munurinn á liðunum jókst og var þá erfitt fyrir Hauka að elta heimamenn. Baráttan var þó til staðar en allt kom fyrir ekki. Snæfell vann að lokum leikinn með 14 stigum 87-73 og eru komnir í undanúrslit.

Haukar komu mörgum virkilega á óvart í vetur með góðum árangri og gáfu spámönnum langt nef. Haukar töpuðu naumlega fyrir Grindavík í undanúrslitum í bikar og knúðu fram oddaleik gegn Snæfelli í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Það er ljóst að Haukar hafa stimplað sig inn meðal þeirra bestu á sínu fyrsta tímabili í IE deildinni í langan tíma og verður árangur liðsins vonandi betri á næsta tímabili.

Gerald Robinson var stigahæstur Haukaliðsins með 22 stig og 14 fráköst og Semaj Inge var honum næstur með 18 stig. Örn Sigurðarson var með 16 stig og 6 fráköst og hafa yngri strákar liðsins þ.e. Örn, Haukur Óskarsson og Emil Barja verið hreint út sagt frábærir í vetur og farið langt fram úr væntingum manna miðað við aldur og fyrri störf.

Tölfæði leiksins