Haukar í 2. sæti eftir sigur á Tindastól

Haukar

Umfjöllunin er fengin að láni frá fotbolti.net 

Haukar fengu stóran skell í síðasta leik gegn toppliði Fjölnis og var því viss pressa á þeim að sýna betri leik. Blíðskaparveður var á Króknum í dag hæg norð- austan hátt sem sagði síðan skilið við vallargesti í síðari hálfleik.

 

Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu mínutur leiksins en litlu munaði að Max Touloute hefði náð að koma heimamönnum yfir eftir eina minutu í leiknum þegar hann skaut í stöng. Eftir þetta fóru Haukamenn að ná yfirhöndinni á vellinum og sást greynilega á leik Stólana að þeir þurftu að venja sig við það að hafa hvorki Theodore Furness né Ben Everson í framlínunni.

Ekkert bit var í sóknarleik Stólanna og Haukamenn áttu í litlum vandræðum með framlínu heimamanna. Einnig höfðu Haukamenn talsverða yfirburði inná miðjunni og fengu þeir að senda boltann auðveldlega sín á milli. Sóknarþungi Haukamanna jókst þegar á leið fyrri hálfleikinn. Miðverðir Tindastóls voru góðir í leiknum og hreinsuðu þá hættu í burtu sem skapaðist. Hinsvegar áttu Stólarnir erfitt með að losa þessa pressu sem Haukar settu á Stólana og það var síðan rétt fyrir hálfleik að Haukamenn eiga fína fyrirgjöf frá hægri sem ratar á skallann á Magnúsi Pál Gunnarssyni sem stýrir honum snyrtilega í hornið.

Verðskulduð forysta Haukamanna í hálfleik. Donni þjálfari gerði nokkrar breytingar í hálfleik og snemma í seinni hálfleik sem lífgaði mikið uppá leik Stólana. Heimamenn fóru að ná betri tökum á leiknum og sóknarleikurinn var mun skárri. Munaði þar mest um nýja leikmanninn sem kom frá Drangey í glugganum honum Benjamín Gunnlaugarsyni. 

Haukamenn voru samt mjög fastir fyrir og vörnin og miðjan hélt vel hjá þeim og leyfðu Stólunum ekki að fá marga sénsa. Arnar Sigurðsson kom síðan inná síðasta korterið og þá var gerð lokatilraun hjá heimamönnum að reyna að fá eitthvað útúr þessum leik. Margir möguleikar voru hjá Stólunum til að skora en Daði Lárusson var vandanum vaxinn í marki Haukamanna. Þrátt fyrir margar sóknir og skot að marki Haukamanna þá náðu Stólarnir ekki að jafna leikinn og sást þarnar greynilega að liðið vantar tilfinnanlega sóknarmann. 

Lið Haukanna virðist vera eins og vél, sem mallar þetta áfram á reynslu og útsjónasemi. Þeir skoruðu þetta eina mark sem þurfti og höfðu seygluna til að landa þessum sigri. Stólarnir aftur á móti voru skelfilegir í fyrri hálfleik en bættu leik sinn mikið í seinni hálfleik og með smá heppni hefðu þeir hæglega getað skorað 1-2 mörk í þessum leik. Eftir leikinn eru Haukar komnir með 22.stig en Stólarni áfram með 14.stig.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/game.php?action=view_article&id=455#ixzz21LKR0jhm