Haukar áttu aldrei séns en ungu strákarnir fengu að spreyta sig

Adam Haukur lék Haukapilta best í dag og skoraði 7 glæsileg mörkHaukar tóku í dag á móti stórliði S.L. Benfica frá Lissabon. Það má segja að þessi leikur hafi verið formsatriði fyrir gestina eftir að hafa sigrað í fyrri leik liðana með 15 marka mun. Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 2 – 0 og var Einar Ólafur flottur í markinu á fyrri hluti fyrri hálfleiks en alls varði hann 8 skot í fyrri hálfleik. Leikmenn Benfica náðu sér þó fljótt á strik og var staðan 10 – 17 þegar gengið var til hálfleiks. Í síðari hálfleik var sama upp á teningnum og sigur Benfica aldrei í hættu en lokatölur leiksins voru 22 – 34 og samanlagt hafði Benfica því sigrað okkar menn með 27 mörkum, 68 – 41.

Það var kannski ekki margt sem gladdi augað hjá Haukum í þessum leik og höfðu menn það á orði að þetta væri eins og að horfa á 2. flokk leika gegn meistaraflokki.  En þó má gleðjast yfir því hvað margir þessara ungu leikmanna sem Patrekur skipti inn á voru skemmtilega baráttuglaðir og áræðnir í sínum aðgerðum en gerðu sig samt líka seka um tæknimistök sem Benfica refsaði alltaf fyrir með hraðaupphlaupi og marki í bakið. Markahæstur Haukamanna var Adam Haukur Baumruk sem skoraði 7 mörk og mörg hver úr glæsilegum langskotum, sannarlega gríðarlegt efni þessi drengur enda á hann ekki langt að sækja það. Einar Pétur lék einnig vel á köflum og skoraði 6 mörk og nýtti öll 4 vítin sem hann tók. Svo má ekki gleyma framlagi yngstu leikmannanna eins og frá Grétari Ara í markinu, Egils Eiríkssonar og Arnars Inga, svo einhverjir séu nefndir. 

Leikmenn Benfica reyndust aftur númeri of stórir fyrir okkar lið. Þeir voru mjög sterkir, flinkir og fljótir. Gerðu fá mistök og það var mjög gaman að fylgjast með þeim sýna oft á tíðum frábæra takta.

Næsti leikur hjá strákunum er í Höllinni á Akureyri fimmtudaginn 24. okt. n.k. og hefst hann kl. 19:00, næsti heimaleikur er síðan fimmtudaginn 7. nóv. gegn HK og sá leikur kl. 19:30.

Áfram Haukar!