Haukar-ÍR 3.leikur

Okkar menn unnu stórsigur á ÍR á Ásvöllum í dag 34-22, þvílík afgreiðsla. Það tók strákana smá tíma að komast í gang, gestirnir byrjuðu betur 1-3, 2-5, 6-9 en þá vöknuðu okkar menn, jöfnuðu 9-9 og náðu yfirhöndinni 13-10. Í hálfleik var staðan 15-12 og útlit fyrir spennandi síðari hálfleik. En annað kom á daginn, Haukarnir settu í gírínn og tóku öll völd á vellinum og þvílík sýning. ÍR-ingar voru hreinlega jarðaðir og áttu ekki “breik” það sem eftir var leiks, yfirburðir okkar manna voru algjörir. Staðan orðin 21-14 , 25-16, 30-19 og lokatölur 34-22.

Liðsheildin var frábær og allir voru að spila virkilega vel. Vörnin var mjög öflug og Bjarni á flugi í markinu. Sóknin gekk einnig fínt eftir smá vandræðagang í byrjun. Þegar strákarnir okkar eru í þessum ham eru þeir svo gott sem ósigrandi.

Markahæstur var Þorkell með 8 mörk og 100% nýtingu. Halldór og Robertas með 6 mörk hvor og Ásgeir Örn 5.

Hátt í tvö þúsund manns voru á Ásvöllum og fín stemming á pöllunum. Haukaáhorfendur voru að vonum í gleðivímu og tóku þátt í leiknum af lífi og sál. Þeir þurfa þó að æfa bylgjurnar aðeins betur fyrir næsta vetur !!!

Þó þessi sigur gefi strákunum okkar ekki stig í næsta leik þá er hann samt frábært vegaranesti er þeir halda í Breiðholtið á þriðjudaginn og við áhorfendur Hauka fylgjum þeim að sjálfsögðu þangað og tökum þátt í gleðinni á leikunum og fögnum með þeim þegar Dollan fer á loft.

Áfram Haukar