Haukar-ÍBV – leikur nr.2 í úrslitum

Stelpurnar okkar urðu að sætta sig við tap gegn ÍBV á Ásvöllum í kvöld 26-27. Ótrúlegur endir á leik sem var spennandi og skemmtilegur í tæpar 60 mínútur.

Haukar skoruðu fyrsta markið en síðan var nokkuð jafnræði með liðunum, okkar stelpur þó alltaf skrefinu á undan, 4-2, 8-4, 11-7 en þá kom lélegur kafli og gestirnir náðu að jafna 11-11 og jafnt var í hálfleik 12-12. Í seinni hálfleik hafði ÍBV forystu framan af 14-16, 15-18 en þá kom góður kafli hjá okkur og stelpurnar ná að jafna 18-18. Síðan skiptust liðin á að hafa forystu, við 20-19, 22-21, þær 22-24 og 23-25. Aftur jafnt 25-25 og 26-26. Þá hófst dramatíkin fyrir alvöru og gestirnir skora með ótrúlegum hætti eftir “langar” tvær sekúndur.

Staðan í einvíginu er 2-0 fyrir íBV svo að á brattan er að sækja fyrir stelpurnar okkar. En við höfum nú séð það svartara og þær mæta galvaskar til eyja fimmtudaginn 1. maí og að sjálfsögðu er ekkert annað í myndinni en sigur.