Haukafólk í yngri landsliðum

Landsliðsþjálfarar yngri landsliða HSÍ hafa valið fimm æfingahópa yngri landsliða. Hóparnir sem um ræðir eru hópar 16 ára og yngri stúlkna og drengja, 17 ára landslið kvenna auk þess sem 18 ára og 20 ára landslið karla hafa verið valin. Hóparnir munu æfa í næstu viku.
 
Haukafólk á fólk í öllum þessum landsliðum og erum við Haukafólk stolt af því að eiga landsliðsfólk á öllum aldri.
 

 

Í landsliði 16 ára og yngri stúlkna eiga Haukamenn einn leikmann en það er Ragnheiður Sveinsdóttir, sem er leikmaður 4. flokks.

 

Tveir Haukamenn hafa verið valdir í landslið 16 ára og yngri drengja en það eru þeir Adam Haukur Baumruk og Sigurður Njálfsson. Þeir eru eins og Ragnheiður leikmenn 4. flokks.

Eins og í 16 ára landsliði drengja eiga Haukamenn tvo leikmenn í 17 ára landsliði kvenna. Það eru þær Guðrún Ósk Guðjónsdóttir og Karen Helga Sigurjónsdóttir, en báðar leika þær með unglingaflokki Hauka.

Aðeins einn leikmaður Hauka er í landsliði drengja 18 ára og yngri. Það er Arnar Daði Arnarsson sem er leikmaður 3. flokks karla.

Flestir Haukamenn voru valdir í karla landslið 20 ára og yngri, en Haukar eiga þar fjóra leikmenn. Það eru allt leikmenn sem leika með 2. flokki félagsins auk þess að þeir eru að banka á dyrnar hjá meistaraflokki. Þetta eru þeir Guðmundur Árni Ólafsson, Heimir Óli Heimisson, Stefán Rafn Sigurmannsson og Tjörvi Þorgeirsson.

Heimasíðan óskar þessum aðilum til hamingju með landsliðssæti sín og óskar þeim velgengni á æfingum landsliðanna.