Haukadagur í Höllinni – dagskrá

Í dag verður sannkallaður Haukadagur í Höllinni þegar bræðrafélögin Haukar og Valur eigast við um bikarmeistaratitilinn eftirsótta. Haukar hafa ekki unnið titilinn í karlaflokki frá því árið 2002 þrátt fyrir að hafa lyft fjölmörgum Íslands- og deildarmeistaratitlum í millitíðinni. Bikarmeistaratitill er því langþráður draumur Haukafólks. Valsmenn eru hins vegar tvöfaldir bikarmeistarar. Upphitun fyrir leikinn hefst á Ásvöllum kl. 12:30 og verður svo haldið með rútum í Laugardalshöllina. Á Ásvöllum verður alvöru frönsk kaffihúsamenning þar sem foreldrar 6. fl. karla hafa tekið sig saman og bakað kökur og annað bakkelsi sem verður ljúft að gæða sér á með rjúkandi kaffibolla. Um leið verður hægt að njóta góðra skemmtiatriða og taka þátt í föndri fyrir unga sem aldna. Brot úr bikarúrslitaleikjum Hauka verða sýnd á breiðtjaldi og andlitsmálning í boði fyrir krakkana. Hvítu bikarbolir Hauka verða til sölu með afslætti og að sjálfsögðu er hægt að ná sér í miða á leikinn. Það er því um að gera að fjölmenna á Ásvelli. Leikurinn hefst svo kl. 16:00 í Laugardalshöll. Rúturnar fara til baka í Fjörðinn að leik loknum.