Handboltaveisla á Ásvöllum

Á laugardaginn verður sannkölluð handboltaveisla á Ásvöllum. Þá verða tveir leikir, sem báðir verða sýndir í sjónvarpinu. Fyrst mæta stelpurnar liði Stjörnunnar klukkan 14:15 og síðan mæta strákarnir okkar liði Akureyrar klukkan 16:15. Báðir leikirnir eru mjög mikilvægir fyrir bæði liðin okkar og er stuðningur áhorfenda mikilvægur sem aldrei fyrr.

Stelpurnar okkar eru í 4. sæti eins og er. Þær eru einu stigi á eftir Val, sem er í 3. sæti, og tveimur stigum á eftir Gróttu, sem er í 2. sæti. Stjarnan er í 1. sæti, 6 stigum á undan okkar stelpum. Með því að sigra Stjörnuna á morgun eiga stelpurnar okkar möguleika á að komast í 2. sæti, ef hagstæð úrslit verða í öðrum leikjum. Í vetur hafa áhorfendur á leikjum stelpnanna ekki verið margir. Það er mjög mikilvægt að við Haukamenn breytum því nú á lokasprettinum því nú er nauðsynlegt að stelpurnar fái okkar stuðning í baráttunni. Eins og oft hefur komið fram skiptir 8. leikmaðurinn á vellinum alltaf miklu máli og við Haukafólkum erum ekki þekkt fyrir að hafa staðið okkur illa þar.

Strákarnir okkar eru í mun verri málum en stelpurnar. Nú, í fyrsta skipti í mörg ár, falla tvö neðstu lið deildarinnar. Við Haukmenn erum nú í 6. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Fylki sem er í 7. sætinu, og þar með fallsæti. Við erum tveimur stigum frá Akureyri sem er í 5. sætinu. Leikurinn á morgun er því rosalega mikilvægur fyrir okkur Haukamenn þar sem við viljum að sjálfsögðu ekki spila í 1. deildinni á næsta ári. Við ætlum okkur að halda okkur í úrvalsdeild og spila meðal þeirra bestu. Til að það náist þarf að sjálfsögðu einnig að koma til góður stuðningur áhorfenda. Nú þurfa menn að fjölmenna á leikina hjá þeim og hvetja liðið til sigurs í hverjum einasta leik sem eftir er.

Mætum öll og hvetjum okkar fólk til sigurs á laugardaginn. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn!!! Látum líka landsmenn sjá hversu öflugt stuðningslið Haukar eiga þar sem leikirnir eru í beinni útsendingu í sjónvarpinu!!

ÁFRAM HAUKAR!!!

Handboltaveisla á Ásvöllum

Á dag verður sannkölluð handboltaveisla á Ásvöllum.

Kl .14:00 hefst leikur Hauka og ÍBV í DHL deild kvenna og kl.16:15 hefst síðan seinni leikur Íslendinga og Frakka.

Miðasala hefst kl.13:00 og er miðaverð kr. 1.000 fyrir fullorðna (15 ára og eldri) og 500 kr fyrir börn (7-14 ára) og gildir miðinn á báða leikina.

Handboltaveisla á Ásvöllum

Góðir Hafnfirðingar og aðrir handboltaunnendur!

Það verður boðið upp á handboltaveislu á laugardaginn kl. 16.30 á Ásvöllum. Þar munu strákarnir okkar mæta hinu geysisterka liði Ademar Leon í seinni leik sínum í Evrópukeppni Bikarhafa. Spænska liðið er skipað mörgum mjög góðum leikmönnum sem leika stór hlutverk með landsliðum sinna þjóða.

Fyrri leikur liðanna var á Spáni síðasta sunnudag. Strákarnir vissu að þar biði þeirra erfitt verkefni og átta marka tap er staðreynd. Miðað við gang leiksins þá hefði 5 marka tap verið eðlileg úrslit en svo varð því miður ekki. Spænska liðið var dyggilega stutt af fjölmörgum áhorfendum sem lögðu leið sína í höllina. Þeir náðu að leggja mikla pressu á dómarana sem urðu þar af leiðandi hliðhollir heimaliðinu.
Það hefur margsinnis sýnt sig að sveiflur milli heima- og útileikja í Evrópukeppninni geta verið mjög miklar. Það er ljóst að Haukamenn munu reyna allt til að vinna upp þessi 8 mörk, en einungi það að sigra þetta lið yrði góður árangur og mikill ávinningur fyrir íslenskan handknattleik.

Við viljum því biðja þig að leggja leið þína á leikinn á laugardaginn, því með mörgum áhorfendum og dyggum stuðningi þeirra getum við skapað þá umgjörð sem þarf til að vinna leik sem þennan.

Miðaverð er 1.000 kr. fyrir fullorðna, en Haukar ætla að gefa grunnskólanemum góða jólagjöf með því að bjóða öllum 14 ára og yngri frítt á leikinn. Ellilífeyrisþegar og öryrkjar fá að sjálfsögðu frítt inn eins og venjulega.

Þarna verður ekki bara í boði skemmtilegur og spennandi handbolti heldur líka flottar kynningar með tilheyrandi ljósasýningu. Þá verður leikurinn sýndur á stóru tjaldi á staðnum. Sem sagt umgjörð eins og hún gerist flottust.

Við Haukamenn þökkum fyrir veittan stuðning á árinu og vonumst til að sjá sem flesta á Ásvöllum á laugardaginn.

Áfram Haukar.