Hafnarfjarðarslagur í kvöld – Petrekur þjálfari í spjalli

Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs HaukaEkki gekk það hjá stelpunum okkar en það þýðir ekkert að hengja haus því það er annars stórleikur sem er framundan og það í kvöld einnig í Laugadalshöll kl. 20:00 þegar að strákarnir okkar etja kappi við FH í alvöru Hafnarfjarðarslag. Í tilefni af þeim leik þá setti heimasíðan sig í samband við Patrek Jóhannesson þjálfara Hauka og tók hann í stutt spjall um leikinn sem er framundan sem og að tala um dvölina hjá Haukaum og framtíðina.

Jæja Patrekur nú byrjaðir þú að þjálfa hjá Haukum fyrir þetta tímabil. Hvernig hefur það verið? Nú hefur þú verið hjá nokkrum félögum á Íslandi og erlendis hvernig eru Haukar í samanburði við þau lið?
Félagið Haukar er alveg magnað og hef ég aldrei kynnst eins mikill fagmennsku og hér. Það er hugsað vel um leikmenn og þá sem vinna hjá félaginu, stjórn,samstarfsmenn og stuðningsmenn eru mjög virkir og vinna vel fyrir félagið. Án þess að gera lítið úr þeim sem starfa við handboltann þá er Þorgeir Haraldsson sá aðili sem gefur handboltanum hvað mestan stöðugleika hjá Haukum enda búinn að vera formaður í mörg ár og með mikla reynslu.

 Nú er langt gengið á tímabilið hjá strákunum  og staðan er 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistrar og Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takti við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?
Fyrir tímabilið þá hættu/fóru 7 leikmenn og við vorum ekki að kaupa menn frá öðrum liðum fyrir utan það að Þröstur kom aftur í sitt uppeldisfélag. Okkur var spáð 3 sæti fyrir mót sem mér fannst þannig séð eðlilegt þrátt fyrir þær breytingar sem voru á liðinu. Ég er með góða stráka sem eru tilbúnir að æfa mikið og við höfum sýnt það oft í vetur að við getum spilað góðan handbolta en þurfum að ná að kalla það fram í hverjum leik. Við hugsum alltaf um að verða betri og notum hvern nýjan dag til þess. Ég hugsa fyrst og fremst um næsta leik en ef ég á að tala um það sem liðið er þá er margt gott sem við höfum gert í vetur (Deildarbikarinn í des 2013) en við þurfum að vera alltaf á tánum, næsti leikur er það sem skiptir máli.

Nú ertu einnig þjálfari Austurríska landsliðssins hvernig hefur það gengið að tvinna þessi tvö störf saman? Kemur það nokkuð niðrá öðru hvoru liðinu?
Ég get ekki séð það miðað við síðasta ár! Austurríki hefur sjaldan spilað eins vel og síðustu ár og svo eru Haukar í ágætis málum. Ég hef meiri tíma en flestir þjálfara á Íslandi fyrir handboltann svo mér finnst þetta frábær blanda en gengur eðlilega ekki upp nema að allir séu samtaka um það að láta hlutina ganga upp, svo er með frábært samstarfsfólk með mér svo þetta er hið besta mál.

Nú er talað um að nokkrir leikmenn liðsins séu eftirsóttir af liðum erlendis er þá ekki mikilvægt að hugað sé vel að þeim leikmönnum sem eru framtíðar leikmenn liðsins og hver er staðan á þeim málum?
Við erum að vinna vel með okkar ungu leikmenn og er góð samvinna milli t.d. mfl. karla og 2.-3. flokks og er Einar Jónsson þjálfari 2.-3. flokks oft á æfingum hjá mfl. og tölum við reglulega um þá leikmenn sem eru að spila í yngri flokkum Hauka. Varðandi leikmenn sem eru eftirsóttir frá erlendum liðum þá hef ég ekki heyrt að einhver sé farinn en auðvitað er það markmið leikmanna að komast í landslið/atvinnumennsku og styð ég menn heilshugar í því en finnst mikilvægt að þeir sem ætla sér eitthvað í boltanum fari þegar þeir hafa klárað Ísland fyrst með stöðugri og góðri frammistöðu og komnir t.d. í landsliðshóp. Oft fara ungir leikmenn of snemma út og í lið erlendis sem æfa kannski minna en við gerum hér heima svo það getur verið skref aftur á bak. Leikmenn eiga að stefna út en aðeins að fara ef menn eru klárir líkamlega og andlega.

Nú áttu Haukar fjölmarga leikmenn sem spiluðu fyrir yngri landslið Íslands á liðnu ári og einhverjir hafa nú þegar fengið tækifæri með liðinu en má búast við fleirum sem fá tækifæri?
Þegar ég tók við í fyrra fór ég ekki fram á að fá leikmenn úr öðrum liðum og hef gefið mörgum ungum Hauka leikmönnum tækifæri í vetur. Ég mun gera það áfram en það fer fyrst og fremst eftir því hvað ungir leikmenn eru tilbúnir að leggja á sig, þeir sem gefa allt í boltann fá tækifæri en það kemur ekki að sjálfu sér. Leikmenn verða að lifa fyrir handbolta og þetta er ekkert flókið fyrir þá sem sjá hlutina rétt og er það mitt hlutverk að hjálpa leikmönnum en aðal ábyrgð liggur hjá hverjum leikmani fyrir sig hvað viðkomandi langar virkilega að gera.

Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?
Það leggst vel í mig og er þetta skemmtileg keppni sem við viljum að sjálfsögðu fara alla leið í en verkefnið er erfitt. Við erum að undirbúa okkur sem best og allir dagar (klukkutímar) eru vel skipulagðir. Við greinum að sjálfsögðu okkar andstæðinga vel en númer eitt fyrir mig er að undirbúa mitt lið eða hvað við viljum gera því það er það eina sem ég hef áhrif á. Fyrir mér er undirbúningur gríðarlega mikilvægur og reyni ég að miðla til leikmanna að gera alltaf sitt besta sem þeir hafa á hverju augnabliki, meira fer ég ekki fram á og annað væri ósanngjarnt. Vonandi ná sem flestir leikmanna minna nálægt 100% sem hver hefur þá eru möguleikar okkar góðir. Þurfum sterka liðsheild og það hefur verið okkar styrkur í vetur.

Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er Hafnarfjarðarslagur gegn FH og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu. Hvernig er þín upplifun á þessum Hafnarfjarðarslögum?
Mín upplifun er góð! Haukar – FH leikir eru mikilvægir fyrir Hafnarfjörð og ekki síður fyrir íslenskan handbolta.

Hvernig er staðan á liðinu fyrir þessa bikarhelgi?
Allir leikmenn eins og staðan er í dag eru í toppformi.

Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
Hvet alla Hauka stuðningsmenn til að koma á föstudaginn, höfum fengið frábæran stuðning í allan vetur og skiptir að sjálfsögðu máli fyrir okkur þegar við spilum leikina. Haukar er frábært félag sem ég er mjög stoltur að vera þjálfari hjá.

Við hvetjum alla til þess að mæta og minnum á það að upphitun fyrir leikinn hefst á Ásvöllum kl. 18:00 og kl. 19:00 eru rútur niðrí Laugardalshöll sem tekur fólk einnig tilbaka eftir leik. Mætum öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!