Hafnarfjarðarslagur á morgun í Strandgötu!

HaukarÍ dag hófst Deildarbikar HSÍ, Flugfélags Íslands bikarinn, að Strandgötu og sigruðu Haukamenn lið Fram með miklum yfirburðum, lokatölur 30-19.

Í hinum undanúrslitaleiknum mættust FH og HK og þar var um að ræða spennandi og skemmtilega viðureign, en framlengingu þurfti til að ná fram úrslitum og lokatölur 28-26 FH í vil.

Það verða því Haukar og FH sem leika til úrslita í Deildarbikarnum annað kvöld klukkan 20:00, í hinu goðsagnakennda Íþróttahúsi við Strandgötu.

 Það má búast við rafmagnaðri stemningu þegar Hafnarfjarðarliðin leiða saman hesta sína í úrslitaleiknum um annan af þeim 5 stóru bikurum sem í boði eru á tímabilinu, en FHingar tóku þann fyrsta þegar þeir sigruðu Val í Meistarakeppni HSÍ, fyrr í haust.

FHingar vilja ennfremur eflaust hefna fyrir síðasta leikinn í N1-deild karla þegar Haukamenn fóru illa með FHinga á þeirra eigin heimavelli.

Við hvetjum því alla Hafnfirðinga til að mæta tímanlega í Strandgötu á morgun og fylgjast með handboltaveislu af gamla skólanum!

Áfram Haukar!