„Hópurinn er kornungur“ – segir þjálfari mfl. kvenna

Haukar

Jón Stefán Jónsson þjálfari Hauka í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu var á dögunum fenginn til að svara nokkrum spurningum varðandi meistaraflokkinn, síðasta tímabil og það sem framundan er. Jón Stefán tók við liðinu fyrir ári síðan og stjórnaði því liðinu í fyrsta sinn á liðnu tímabili. Þar enduðu Haukar í 6.-7. sæti með 17 stig í 1.deild kvenna A-riðli.

Miklar breytingar urðu á liðinu frá tímabilinu 2010 og því var ljóst fyrir tímabilið í sumar, að erfitt tímabil væri framundan og var liðið virkilega ungt að árum. Jón Stefán var fyrst beðinn um að fara aðeins yfir síðasta tímabil,

,,Við ætluðum okkur að sjálfsögðu að enda ofar í deildinni en hvort við höfum lið í það má deila um, við vorum með mikið breytt lið í höndunum og renndum nokkuð blint í sjóinn. Deildin var mjög jöfn og hefði ekki mikið þurft að gerast til þess að við blönduðum okkur í toppbaráttu. Við vorum t.d. í góðum séns á úrslitakeppni fyrir síðustu fjóra leikina en því miður gekk það ekki. Það sem upp úr stendur hins vegar er að margar ungar stelpur fengu mikilvæga reynslu sem þær munu búa að á næsta tímabili.“

Eins og fyrr var greint frá, er hópurinn ungur að árum og lítil meistaraflokksreynsla, við báðum Jónsa að fara aðeins yfir leikmannahópinn eins og hann er skipaður í dag,

,,Hópurinn er kornungur, við erum með einn leikmann fæddan 83‘, einn leikmann fæddan 88‘ og svo eru allar hinar fæddar 90‘ og síðar. Til að mynda má þess geta að í hópnum eru núna 8 leikmenn fæddir 94‘ eða síðar. Vissulega hefur það sína kosti og galla að hafa svona ungan hóp, ég lít þó svo á að kostirnir séu fleiri en gallarnir, það er hægt að vinna mikið með liðið og það getur tekið hröðum framförum á ótrúlega stuttum tíma. Stærsti gallinn er auðvitað reynsluleysið. Rúmur helmingur hópsins eru stelpur sem koma upp úr yngri flokkum Hauka. Síðasta sumar var byrjunarliðið yfirleitt skipað sex  til sjö leikmönnum sem komu úr yngri flokkum félagsins. Við fengum svo nokkrar ungar stelpur frá öðrum félögum sem láta svo sannarlega ekki sitt eftir liggja fyrir félagið. Ég er mjög ánægður með uppbyggingu hópsins okkar,“ sagði Jón Stefán að lokum.

Við munum birta fleiri svör Jóns Stefáns á morgun, þar sem hann talar um hópinn sem hann hefur í höndunum í dag og þær breytingar sem hafa verið á liðinu.