Grétar Ari í atvinnumennsku

Grétar Ari Guðjónsson markvörður meistaraflokks er á leið í atvinnumennsku fyrir næsta tímabil. Grétar hefur verið aðalmarkvörður Haukaliðsins undanfarin 2 ár og verið einn af betri markvörðum deildarinnar, en í vetur var hann með næstbestu hlutfallsmarkvörslu allra markvarða í Olísdeildinni. Grétar varð Íslandsmeistari með Haukum árin 2015 og 2016 og einnig deildarmeistari árið 2019.

Grétar var fastamaður í yngri landsliðum Íslands og vann hann til bronsverðlauna með Íslenska U -19 ára liðinu á HM árið 2015. Grétar hefur verið viðloðandi A-landslið karla síðastliðin ár.

Haukar eru stoltir af því að enn einn uppaldi Haukamaðurinn sé á leið í atvinnumennsku, sem er hluti af afreksstefnu félagins en Grétar hefur stefnt að því lengi og náð því markmiði sínu með dugnaði og elju.

Um vistarskiptin hafði Grétar þetta að segja „Ég er mjög ánægður að þetta hafi gengið upp og er spenntur fyrir framhaldinu. Ég tel að þetta sé besti staðurinn sem ég gat farið á í dag til að taka næstu skref á mínum ferli og verða enn betri markvörður.“

Haukar óska Grétari góðs gengis í famtíðinni og hlakka til að sjá hann spreyta sig á nýjum vígstöðum.