Grafarvogspiltar nokkrum númerum of stórir

Semaj Inge fór mikinn í liði Hauka að vanda og var með 25 stig Mynd: Karfan.isHaukastrákar heimsóttu Fjölni úr Grafarvogi í kvöld í 5. umferð Iceland Express-deildar karla.

Fyrir leikinn voru Haukar með fjögur stig en heimamenn í gulu með tvö. Leikurinn var því þýðingarmikill fyrir bæði lið.

Til að gera langa sögu stutta unnu heimamenn stóran og sannfærandi sigur þar sem okkar menn áttu erfitt uppdráttar stóran hluta af leiknum. Lokatölur 107-81 Fjölni í vil.

Eftir að hafa byrjað tímabilið vel og unnið tvo fyrstu leiki sína eru Haukar búnir að tapa þremur leikjum í röð og sitja í 8. sæti deildarinnar. En síðustu tapleikirnir hafa verið gegn góðum liðum sem léku vel og á það sérstaklega við Grindavík og nú Fjölni í kvöld. Það virtist ekki skipta máli hver skaut boltanum hjá heimamönnum – allt fór ofaní.

Það voru heimamenn sem hófu leikinn af krafti og komust í 10-2. Þeir leiddu allan leikinn og í hálfleik var 49-37 eftir að Haukar minnkuðu muninn í 42-37 rétt fyrir lok hálfleiksins. Fjölnir setti þá sjö stig á nokkrum sekúndum og fóru með 12 stig inn í hléið.

Í seinni hálfleik átti Örn Sigurðarson fyrstu körfuna og minnkaði muninn í 10 stig. En þá komu tveir þristar frá Fjölni og munurinn kominn í 16 stig.

Haukar gáfust ekki upp en mikil skotskýning hófst hjá báðum liðum þar sem þristar og löng skot flugu ofaní.

En það voru heimamenn sem skoruðu fleiri stig á þessum kafla og fór munurinn yfir 20 stig og í lokaleikhlutanum var ljóst að stigin tvö yrðu eftir í Grafarvogi.

Lokatölur 107-81 og sigur Fjölnis sanngjarn.

Hjá Haukum var Semaj Inge með 25 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Gerald Robinson var með 15 stig og 5 fráköst en hann þarf að spila miklu meira fyrir liðið. Óskar Magnússon var með 12 stig og Örn Sigurðarson 11. Aðrir skoruðu minna.

Innkoma Emils Barja var skemmtileg en hann var með 5 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum og var það jákvæðasta við leik Hauka. En hann er aðeins 19 ára og mikið efni.

Næsti leikur Hauka er næstu helgi í Powerade-bikarnum en þeir mæta annað hvort ÍBV eða Stál-úlfi í 32-liða úrslitum bikarsins en þessi lið leika í forkeppninni á laugardag.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni

Áfram Haukar