Grátlegt tap hjá stelpunum

Það var dýrindis veður þegar Haukar og Fylkir mættust í Visa bikar kvenna Ásvöllum í dag. Leikurinn byrjaði á því að liðin voru að þreifa fyrir sér en það voru þó Fylkis stúlkur sem sóttu meira án þess þó að skapa sér góð marktækifæri.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 31. mínútu þegar Fjolla Shala náði að nýta sér mistök í vörn Hauka og skaut í slánna og inn úr miðjum vítateig Hauka. Haukar létu það þó ekki á sig fá og jöfnuðu 5 mínútum seinna þegar Ellen Þóra Blöndal tók hornspyrnu sem Anna Margrét Gunnarsdóttir fyrirliði Hauka náði að skalla í netið og jafna þar með leikinn.

Seinni hálfleikur byrjaði á því að Fylkir sótti meira og voru meira með boltann en það var eins og í fyrri hálfleiknum þá náðu þær ekki að koma sér í nógu góð færi þó svo að þær hafi átt m.a. skot í slá og í stöngina. Fátt markvert gerðist eftir þetta og staðan eftir venjulegan leiktíma því jöfn og framlengja þurfti því leikinn.

Þegar 10 mínútur voru búnar af framlengingunni náði Fylkir forusstu þegar misskilnigur varð í vörn Hauka og Anna Sigurðardóttir slapp ein innfyrir og náði að koma boltanum framhjá Dúfu Dröfn Ásbjönsdóttur í marki Haukar og staðanþví orðin 2-1 Fylki í vil. Svo í seinni hálfleik þá bætti Fylkir við marki en þá fékk Anna Björg Björnsdóttir sendingu inn í teig og átti skot sem Dúfa Dröfn varði en Anna náði frákastinu og lagði boltann í neti og gulltryggði þar með sigurinn 3-1.

Það er greinilegt að Haukar eru með hörkulið því þær létu Fylkis stúlkur hafa fyrir sigrinum í dag þó svo að Fylkir hafi kannski ekki sýnt sitt rétta andlit en þær sýndu þó styrk sinn í framlengingunni og náðu að klára leikinn.