Gleðilega páskahátíð

Páskahátíðin er gengin í garð og við fögnum því að eiga notalegar stundir með fjölskyldu og vinum. Um páska gefst okkur einnig tækifæri til að njóta margvíslegra viðburða. Úrslitaviðureignir í körfubolta og handbolta eru framundan, uppskeruhátíð íþróttamanna og íþróttaunnenda, þar sem allt er lagt í sölurnar til að ná góðum úrslitum. Þá er knattspyrnuvertíðin handan við hornið, hlaupahópur fagnar hækkandi sól og karatefólkið okkar fagnar góðum árangri sinna iðkenda. Íþróttamiðstöð okkar á Ásvöllum iðar sem fyrr af lífi frá morgni til kvölds og úti heyrist vélarskrölt og tækjaglamur frá vinnuvélum þar sem nú er unnið hörðum höndum við byggingu myndarlegs knatthúss og íbúða. Sannarlega ánægjuleg umhverfishljóð sem bera vott um kraftmikla uppbyggingu á íþróttasvæði Knattspyrnufélagsins Hauka.                                              Já, framtíðin er sannarlega björt.

Bestu óskir um gleðilega páskahátíð,
Magnús Gunnarsson,
formaður Knattspyrnufélagsins Hauka.