Glæsilegur sigur í fyrstu umferð

HaukarÞað var mjög sérstök tilfinnig að fylgjast með fyrsta leik Haukastrákanna í Digranesi í gærkvöldi. Þrátt fyrir að nokkrir af okkar bestu leikmönnum á síðasta tímabili væru horfnir á braut þá höfðum við endurheimt þrjá glataði syni.

Ég er auðvitað að tala um þá Aron Kristjánsson, Gylfa Gylfason og Matthías Árna Ingimarsson, þó svo Gylfi hafi ekki leikið með að þessu sinni, líklega vegna meiðsla.

Auk týndu sonanna hafði okkur borist liðsstyrkur í hinum unga Nemanja Malovic.

Jafnræði var með liðum í upphafi og eftir stundarfjórðung stóðu leikar jafnir, 8:8. HK gekk þá á lagið og uppskar tveggja marka forskot í leikhlé, 13-11.

En Haukarnir eru fátt betur þekktir fyrir en að koma sterkir til baka úr pásu og á fyrstu 13 mínútum seinni hálfleiks skoruðu Haukar ein átta mörk gegn einu marki heimamanna. Staðan því 14-19 fyrir Hauka. Þarna virtust Haukar sofna eilítið á verðinum og HK virtist ætla að komast inn í leikinn aftur, en Haukar héldu nú ekki og keyrðu aftur á heimamenn og lokatölur 22-27 fyrir Hauka.

 

Maður Leiksins (að mati þess er ritar): Þó svo að margir leikmenn Hauka hafi leikið stórvel, þar má t.d. nefna Aron Rafn Eðvarðsson sem varði um 45% skota sem á hann komu þá telur undirritaður að titilinn Maður Leiksins eigi fyrrnefndum Nemanja Malovic að öðrum ólöstuðum, hann lét heldur betur taka eftir sér og skoraði ein 12 mörk í sínum fyrsta deildarleik með Haukum. Einnig er vert að minnast á þjálfara Hauka, Aron Kristjánsson, sem stjórnaði liðinu með sinni alinkunnu snilld, velkominn heim!

 

Næsti leikur Haukamanna er gegn ógnarsterku liði Fram sem lagði einmitt Íslandsmeistara FH í fyrstu umferð, en þeir heimsækja okkur á Ásvelli sunnudaginn 2. október klukkan 16:00.

 

Sjáumst þá,

Áfram Haukar!