Góður sigur á Keflavík

HaukarSnemma í gærmorgun fór fram æfingaleikur í Reykjaneshöllinni þegar Pepsideildarliðin, Keflavík og Haukar mættust.

Haukar fóru með 2-0 sigur úr bítum í leiknum með mörkum frá sóknarmönnunum Arnari Gunnlaugssyni og Ómari Karli Sigurðssyni.

Það vantaði helling í lið Hauka í gær, Guðjón Pétur er í Danmörku, Jónas Bjarnason er á EM í Austurríki, Guðmundur Mete er tæpur á meiðslum, Hilmar Emils. er í Bandaríkjunum, Garðar Geirs. var veikur, Ísak tæpur á meiðslum sem og Jónmundur, Úlfar að gefa barninu að borða. Svo var Amir ekki með en hann var erlendis fyrir áramót er enn að koma sér í leikform svo má ekki gleyma kónginum, Tóta Dan sem er enn að ná sér eftir aðgerð sem hann fór í fyrir áramót.

Þarna eru hvorki fleiri né færri en tíu leikmenn og flest allt leikmenn sem eru byrjunarliðsmenn. En það mættu þó nógu margir í leikinn til að hægt væri að spila hann og Haukastrákarnir létu mikil forföll ekki skipta neinu máli og spiluðu glimrandi fótbolta í gær.

Ómar Karl Sigurðsson sem var í Noregi á síðasta tímabili hefur verið að æfa og leika með Haukum síðustu mánuði skoraði fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá Hilmari Trausta. Seinna markið skoraði síðan markahrókurinn Arnar Gunnlaugsson eftir sendingu frá rauðhærða bakverðinum, Sindra Steinarssyni.

Stefán Daníel Jónsson góðan leik á miðjunni en hann lék undir lok síðasta tímabils í bakverðinum en hann og Hilmar Trausti höfðu góð tök á miðjunni. Einnig var Daði Lárusson traustur í rammanum en hann spilaði allan leikinn. Vörnin vann sig vel inn í leikinn en hún var varasöm í byrjun. Hilmar Geir og Ásgeir voru sprækir á köntunum þegar leið á leikinn.

Í leiknum spiluðu svo tveir leikmenn sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Hauka, það eru þeir Marteinn Gauti Andrason, sonur Andra þjálfara og Alexander Freyr Sindrason, sonur Sindra formanns Hauka. Við óskum þeim til hamingju með þennan áfanga. Þeir tveir eru báðir í 2.flokki en auk þeirra kom Gunnar Richter inn á en hann er einnig í 2.flokknum en kom við sögu í nokkrum leikjum síðasta sumar.

Næsti leikur er svo á laugardaginn í Kórnum þegar Hafnarfjarðarliðin, Haukar og FH mætast. Tímasetning verður tilkynnt í vikunni.