Góður sigur á FH

HaukarHaukastelpur unnu góðan sigur á FH-stúlkum í N1-deild kvenna á laugardaginn, leikurinn fór fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Stelpurnar okkar voru sterkari frá upphafi til enda en tókst þó ekki að hrista FH almennilega af sér fyrr en í síðari hálfleik. Í hálfleik var fjögurra marka munur á liðunum 16-12 en í síðari hálfleik jókst bilið jafnt og þétt og endaði leikurinn með níu marka sigri Haukastúlkna 32-23. Augljóst var að stelpurnar ætluðu sér að selja sig dýrt og börðust þær grimmilega í vörninni, sést það kannski best á að liðið fékk samtals 12 mínútur í brottvísanir fyrir að taka stundum aðeins of fast á nágrönnum sínum.

Með sigrinum treystu Haukastúlkur stöðu sína í 6. sæti deildarinnar og eru nú komnar með 6 stig en á eftir koma Grótta og FH með 3 stig hvort lið, en sex efstu liðin í deildinni fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn þegar deildarkeppninni líkur. 

Þær Díana Sigumarsdóttir og Marija Gedroit voru markahæstar Haukastúlkna með 7 mörk hvor, Ásta Björk Agnarsdóttir skoraði 6, Karen Helga Sigurjónsdóttir 4, Silja Ísberg 3, Viktoría Valdimarsdóttir 2, Elsa Björg Árnadóttir 1, Ásthildur Friðgeirsdóttir 1 og Gunnhildur Pétursdóttir 1.