Góður liðsandi og stór sektarsjóður

Haukastelpur mæta liði Fjölnis í kvöld í Grafarvogi í IE-deild kvenna en Haukar hafa verið á mikilli siglingu undanfarið og til að mynda unnið fjóra leiki í röð. Liðið er nú í fjórða sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir KR og Njarðvík sem að eru í 2.-3. sæti.

Við heyrðum í Bjarna Magnússyni þjálfara liðsins á dögunum og köstuðum á hann nokkrum spurningum þar sem að hann fer í gegn um hikstið í upphafi leiktíðar, hvað hefur komið honum á óvart og hvar hann felur Gunnhildi Gunnars.

Tímabilið er búið að vera alvöru rússíbanareið í vetur hjá ykkur. Á undirbúningstímabilinu voru þið heitasta liðið og unnið Lengjubikarinn. Svo töpuðu þið fyrstu þremur leikjunum í deildinni en eftir það eruð þið búnar að vinna fimm af síðustu sex og þar af fjóra í röð. Getur þú útskýrt þessar miklu sveiflur?

Já það má segja það að það séu búnar að vera töluverðar sveiflur í þessum leikjum hjá okkur í vetur. Eins og þú segir þá byrjaði þetta allt glimmrandi vel, unnum alla okkar leiki á undirbúnings tímabilinu. Fórum svo nokkuð létt í gegnum riðilinn okkar í Lengjubikarnum og unnum svo Keflavík í úrslitaleik í þeirri keppni. Þessi árangur varð til þess að hinir ýmsu sérfræðingar fóru að tala um að Haukar gætu jafnvel blandað sér í baráttu um efstu sætin í deildinni í vetur og stuðningsfólk byrjað að veðja sín á milli hvað liðið ynni marga bikara í viðbót þennan veturinn. Ég held satt best að segja að umræða og spádómar hafi ekki farið vel í okkur og strax fyrir fyrsta leik á móti Njarðvík að þá komum við með rangt hugarfar inn í þann leik sem varð til þess að við töpuðum honum illa.  Þannig að það má segja að við höfum ekki höndlað nógu vel þessa 15 mín Lengjubikars „frægð“ og það tók okkur nokkra leiki að ná fram því hugarfari sem þarf til að vinna leiki í þessari deild.

Liðið er á mikilli siglingu þar sem hver mótherjinn hefur verið lagður að velli. Hvaða lið var erfiðast að eiga við?

Af þeim leikjum sem við höfum unnið þá var mest spennandi leikurinn á móti Hamri í Hveragerði. Við hittum afleitlega í þeim leik þrátt fyrir að við höfum komið okkur ítrekað í góð færi. Þessi leikur var í járnum alveg fram á síðustu mínútur en stelpurnar settu niður góðar körfur á síðustu metrunum þannig að við náðum að klára þennan leik, en tæpt var það!

Hvað telur þú vera styrkleika liðsins?

Metnaðarfullur hópur, góður liðsandi…já og stór sektarsjóður.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í Iceland Express-deild kvenna í vetur?

Ætli það sé ekki hversu erfiðlega hefur gengið hjá Val í fyrstu leikjunum. Þær eru með góðan hóp en þetta hefur ekki alveg verið að smella hjá þeim í byrjun. Unnu þó sannfærandi sigur á Fjölni í síðasta leik og þær eiga án efa eftir að bæta sig eftir því sem líður á mótið.

Þið eigið Fjölni næst. Hvað þurfið þið að gera til að hafa betur gegn þeim?

Fyrst of fremst þurfum við að hugsa um að halda áfram að bæta okkur varnarlega. Þetta er ekki svo flókið, passa upp á að þær skori færri stig en við og þá eigum við alltaf möguleika. En svona án gríns að þá eigum við líklega eftir að leggja þetta upp svipað og í síðustu leikjum og í þeim hefur vörnin verið að skila okkar þessum sigrum, höfum fengið á okkur rétt rúmlega 60 stig í síðustu 4 leikjum og þannig viljum við hafa það.

Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur ekki verið með í síðustu leikjum. Hvað er að hrjá hana?

Já það passar, Gunnó var bara með okkur í fyrstu 2 leikjunum og munar nú aldeilis um það. Hún fékk högg á annað hnéð og við það myndaðist beinmar og krossbönd færðust til,  var mjög heppin að þau slitnuðu ekki. En þetta er allt á réttri leið hjá henni þannig að ég vona að hún geti byrjað að æfa með okkur eitthvað fyrir jól.