Góður árangur Hauka á Íslandsmeistaramóti í karate

Um nýliðna helgi fór fram Íslandsmeistaramót í Kumite (í frjálsum bardaga) og áttu Haukar þar þrjá keppendur þá Guðbjart Ísak Ásgeirsson, Helga Frey Jónsson og Kristján Ó. Davíðsson. Þeir stóðu sig allir með stakri prýði og komu klyfjaðir verðlaunum af mótinu.

Í -75kg flokki mættust liðsfélagarnir Guðbjartur Ísak Ásgeirsson og Kristján Ó. Davíðsson og hafði Kristján betur eftir spennandi og jafnan bardaga þar sem munaði einu stigi.

Í liðakeppni töpuðu strákarnir fyrir liði Víkings í úrslitum svo allir liðsmenn Hauka fóru heim með verðlaun að móti loknu.

Í opnum flokki endaði Kristján svo í 3. sæti.

Haukar enduðu svo í öðru sæti í stigakeppni félaga með 10 stig sem verður að teljast ansi góður árangur hjá strákunum.

Stefnan er alltaf sett á sigur hjá Karatedeildinni og gleðst hún yfir því að færa Haukum fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki á 80 ára afmæli félagsins.