Góðgerðaleikur í Garðabæ – Stjarnan – Haukar í mfl. kvenna

HaukarÁkveðið hefur verið að efna til ágóðaleikja í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ fyrir Þórarinn Sigurðsson, mikinn Stjörnumann. Meistaraflokkur karla hjá Stjörnunni mun mæta FH en meistaraflokkur kvenna mun mæta Haukum en leikirnir fara báðir fram fimmtudaginn 1.október. Kvennaleikurinn hefst 18:15 en karlaleikurinn 20:00.

Textinn hér að neðan er tekinn af HSÍ.is

Vinur í vanda

Lífið leikur menn misjafnt. Flestir verða þó fyrir mótlæti af ýmsu tæi. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Það er erfið reynsla að greinast óvænt með illvægan sjúkdóm.

Góður félagi

Í þeirra hópi er góður vinur og mikilvirkur félagi okkar í Stjörnunni, Þórarinn Sigurðsson. Hann glímir nú við sjúkdóm sinn, krabbamein.

Þórarinn er Stjörnumaður sem reynst hefur félagi sínu vel. Félagið hefur senn starfað í hálfa öld og gengi þess og árangur hvílir eigi síst á þeim, sem lengi og dyggilega hafa unnið að velferð þess. Við sem störfum í félaginu í dag megum aldrei gleyma því að grundvöllur starfs okkar byggir á störfum margra sem í gegnum tíðina hafa lagt félaginu til óeigingjarnt starf.

Þórarinn Sigurðsson, eða Tóti eins og við köllum hann, hefur átt þar stóran hlut. Hann hefur verið leikmaður og dómari á vegum félagsins, þjálfari, formaður handknattleiksdeildar, í aðalstjórn og þannig einn af stuðningsmönnum þess nánast frá upphafi. Hann hefur margan leikinn háð og barist til sigurs sem sannur íþróttamaður jafnt í meðlæti sem mótlæti. Hann nýtur vináttu og virðingu margra.

Erfið barátta

Nú er hafin sú viðureign í lífi Þórarins, sem hann bað ekki um. Samt eru viðbrögð hans hin sömu og áður. Hann tekst á við vanda sinn af æðruleysi og með sínu alkunna baráttuþreki. Hann er dyggilega studdur af fjölskyldu sinni. Hér á landi hefur hann gengið í gegnum hefðbundnar læknisaðferðir. Þær báru ekki tilætlaðan árangur. Þórarinn gafst ekki upp og fann lækni í Þýskalandi, sem beitir nýstárlegum aðferðum í baráttu við þetta mein. Þórarinn hefur farið fimm sinnum til þessa læknis. Árangur er framar vonum. Dýrar eru þessar ferðir svo nema mun milljónum auk vinnutaps.

Leggjum honum lið

Nú höfum við nokkrir félagar í Stjörnunni ákveðið að efna til söfnunar fyrir hann og fjölskyldu hans. Ákveðið hefur verið að efna til ágóðaleikja í íþróttahúsinu Mýrinni. Þar mun meistaraflokkur félagsins í karlaflokki etja kappi við FH og meistarflokkur kvenna keppir við Hauka. Það má geta þess að Þórarinn kom að þjálfun beggja þessara kvennaliða er þau unnu bæði Íslands- og bikarmeistaratitla. Leikirnir fara fram fimmtudaginn 1. október í Mýrinni, kvennaleikurinn hefst klukkan 18:15 en karlaleikurinn kl. 20:00

Við viljum skora á alla þá sem eiga kost á að mæta og sýna Þórarni stuðning. Einnig viljum við skora á alla sem ekki eiga kost á að mæta að leggja a.m.k. sem nemur andvirði eins aðgöngumiða kr. 1000.- inn á reikning hjá BYR nr. 1121 05 760 710. Kennitala Þórarins er 26 04 50 4689.

Með fyrirfram þakklæti,

Félagar í Stjörnunni