Fyrstu stig sumarsins, jafntefli í Kópavogi

1. deild karla. Kópavogsvöllur 23. maí 2005.

Lið Hauka

Amir Mehica –

Davíð Ellertsson (Geoff Miles 45) , Óli Jón Kristinsson, Daníel Einarsson, Svavar Sigurðsson – Hilmar Geir Eiðsson, Kristján Ómar Björnsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Betim Haxhiajdini (Arnar Steinn Einarsson 70) – Hilmar Rafn Emilsson (Ómar Karl Sigurðsson 73), Rodney Perry.

Leikurinn hófst mjög fjörlega þar sem miðverðir HK gerðu sig seka um slæm varnarmistök strax á fyrstu mínútu leiksins. Þeir sluppu með skrekkinn í þetta skiptið en tveim mínútum síðar nær Rodney Perry með líkamsstyrk sínum að lauma Hilmari Rafni framhjá miðvörðum HK þar sem hann átti aðeins markamanninn eftir. Úr dauðafærinu varði hinsvegar Gunnleifur í markinu vel, en þó ekki betur en svo að Hilmar Geir sem fylgi vel eftir af kantinum náði að skora – hans fyrsta deildarmark á ferlinum. Haukar strax komnir með forystuna.

En aðeins 2 mínútum seinna var svo dæmd vafasöm vítaspyrna á Haukamenn. Þar vildi dómarinn vildi meina að Davíð Ellerts hafa snert sóknarmanni HK eitthvað á ólögmætan hátt inni í teig Hauka. Þótti dómurinn vafasamur og mótmæltu Haukamenn harðlega, bæði inni á vellinum sem og uppi í stúku, en eins og landsmenn vita og Bjarni Fel hefur oftlega haft á orði, þá þýðir ekkert að deila við dómarann. Úr vítaspyrnunni skoraði svo hinn strípu-hærði miðvörður HK auðveldlega framhjá Amir í marki Hauka.

Eftir þessar fjörugu upphafsmínútur hægðist aðeins á leiknum & HK menn fóru hægt og bítandi að ná yfirburðartökum á leiknum. Samspil Haukamanna var ekki upp á marga fiska og fátt um léttleikandi miðjuspil og margt um langar tilgangslausar hreinsanir upp völlinn. Voru HK menn mjög duglegir að sækja upp vinstri væng Haukamanna þessar mínúturnar, en allt kom fyrir ekki. Hálfleikstölur 1-1.

Seinni hálfleikur spilaðist nokkuð líkt þeim fyrri, ef frá eru taldar fyrstu mínúturnar. HK menn voru ávallt liklegri til að skora næsta mark.

Það var svo úr að á 72 mínútu kom seinna mark HK. Sóknarmaður Kópavogsliðsins fær stutta sendingu af hægri kantinum og á laust skot frá vítateigshorninu í horn Amirs markvarðar. Öllum að óvörum náði boltinn að skoppa framhjá höndum Amirs er lagstur var á hliðina til að grípa boltann. Ekki þykir ólíklegt að sólin hafi blindað Amir.

Eftir innkast frá vinstri berst boltinn út við vítateigslínuna, þar sem Svavar Sigurðsson nær viðstöðulausu skoti gegnum mannþröng leikmanna beggja liða og þandi boltinn að lokum net möskvana af miklum krafti. Gunnleifur átti aldrei möguleika á að koma hönd á bolta. Þar með náði varnarmaðurinn Svavar að skora í sínum fyrsta deildarleik, svo sannarlega glæsilegt það.

Á seinustu mínútu venjulegs leiktíma fær svo Perry stungusendingu inn fyrir vörnina, þar sem þunglamalegur miðvörður HK átti ekki roð í snöggar fætur Perrys sem gjörsamlega stakk hann af. Brá þá hinn stóri miðvörður til þess örþrifaráðs að grípa í Perry og bókstaflega næsta leggjast yfir sóknarmanninn knáa, sem auðvitað féll við þetta í grasið. Þarna var klárlega um rautt spjald að ræða, það sá hvert mannsbarn, en huglaus dómari leiksins fiskaði aðeins gult spjald úr vasa sínum að þessu sinni. Upp úr aukaspyrnunni átti Kristján Ómar ágætt skot er fór framhjá. Lokatölur 2-2

Í heildina á litið geta Haukmenn verið sáttir við jafteflið. Ekki reyndi mikið á Amir í marki Hauka þrátt fyrir nokkurn atgang HK manna að markinu næsta allan leikinn. Ekki er hægt að tala um góðan leik okkar manna að þessu sinni, þó var það sterkt hjá stákunum að ná að jafna leikinn undir lokinn með góðu marki og krækja þar með í fyrsta stig sumarsins.

Maður leiksins að þessu sinni var dómarinn.