Frábær árangur á afmælisári

Haukar logo 85 áraHaukar hafa sýnt klærnar á afmælisári og hafa nú þegar unnist þrír deildarmeistaratitlar í vetur. Félagið á fjögur lið sem eru að spila í úrslitum og nú þegar eru tvö þeirra komin í undanúrslit og eiga góða möguleika á því að spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

Handknattleiksdeild Hauka hefur heldur betur slegið í gegn, en bæði kvenna- og karlalið Hauka hafa unnið deildarmeistaratitil og líta vel út rétt áður en úrslitakeppnin hefst hjá báðum liðum.
karlaliðið hefur sýnt fádæma yfirburði í vetur og vinna deildarmeistartitil örugglega, með 8 fleiri stig en næsta lið, Valur. Strákarnir hafa spilað vel í vetur og verður spennandi að fylgjast með þeim er úrslitakeppnin byrjar hjá þeim fimmtudaginn 14. apríl á móti Akureyri.
Stelpurnar hafa heldur betur sprungið út og tryggðu sér deildarmeistarartitilinn í Eyjum um síðustu helgi. Mikill stígandi hefur verið hjá þeim og hafa verið á mikillri siglingu nú síðustu vikur. Mikil spenna er fyrir úrslitakeppninni hjá stelpunum og hefja þær leik á miðvikudaginn 13. apríl á móti Fylki.

Körfuknattleiksdeildin hefur staðið sig gríðarlega vel og urðu stelpurnar deildarmeistarar og eru að spila í undanúrslitum á móti sterku liði Grindvíkinga og er staðan núna 2-2 en þær spila oddaleik um að komast í úrslit Dominos deilda kvenna, mánudaginn 11. apríl. Karla liðið hefur staðið sig einstaklega vel og eru komnir í undanúrslit á móti Tindastóli og leiða 2-1 en fjórði leikurinn verður á Króknum þriðjudaginn 12. apríl og geta strákarnir gefið félaginu stóra afmælisgjöf með sigri og tryggt sig í úrslit Domins deildar karla á afmælisdeginum. Bæði lið eru skipuð uppöldum leikmönnum sem gerir þetta enn áhugaverðar.

Knattspyrnudeildin stóð sig einstaklega vel í fyrra og voru strákarnir í baráttunni um að komast upp í efstu deild alveg fram í síðustu umferð, þrátt fyrir að spila eingöngu á uppöldum leikmönnum og mjög ungu liði. Nú er stefnan tekin á að fara upp og lítur liðið vel út núna á vordögum og verður spennandi að fylgjast með þeim í sumar. Kvennaliðið hefur einnig styrkst og hafa verið að spila vel núna í vormótum og má búast við því að þær blandi sér í baráttuna um að komast upp í efstu deild. Framtíðin er björt hjá knattspyrnudeildinni og hefur verið gríðarleg fjölgun hjá yngri flokkum félagsins og er farið að vanta inni æfingaaðstöðu fyrir deildina.

Knattspyrnufélagið Haukar er eitt af öflugustu félögunum á landinu og hafa sýnt það í vetur að það eru fá félög á landinu sem eru jafn öflug og sést það best á þeim titlum sem hafa unnist síðustu árin, þrátt fyrir að deildirnar hafi byggt starf sitt upp á uppöldum leikmönnum og lagt áherslu á að vera með fjölskylduvæna stefnu alveg uppí meistaraflokka félagsins.

Nú er ljóst að allar deildir innan Hauka búa við aðstöðuleysi. Mfl. félagsins í handbolta og körfubolta æfa aldrei á keppnisvellinum í Schenkerhöllinni og eru stöðugt að missa æfingar vegna leikjaálags og knattspyrnudeildin hefur ekki neitt knattspyrnuhús til að æfa í og geta ekki æft inni í Schenkerhöllinni þar sem íþróttahúsið er löngu sprungið. En árangur mfl. félagsins hefur líka gríðarleg áhrif á yngri flokka félagsins, æfingar falla stöðugt niður vegna leikja mfl. félagsins og aðstöðuleysi yfir veturinn háir fjölgun hjá öllum deildum félagsins.
Ljóst er að bæjaryfirvöld verða að spýta vel í og gera betur fyrir félagið okkar á næstu árum.

Með afmæliskveðju,
Ívar Ásgrímsson