Frítt er á landsleik Íslands og Belgíu

Á miðvikudaginn næstkomandi mætir íslenska landsliðið landsliði Belga í undankeppni Evrópumótsins í handbolta, en þetta er fyrsti leikur riðilsins. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll og hefst leikurinn klukkan 20:15.

Nokkrir Haukamenn eru í æfingahópnum fyrir landsleikinn, þar er fyrst hægt að telja upp línumanninn Kára Kristján Kristjánsson sem hefur slegið í gegn í vetur bæði í N1-deildinni sem og í Meistaradeild Evrópu. Einnig er Vignir Svavarsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Þórir Ólafsson í hópnum. Kári Kristján hefur verið að glima við meiðsli en við vonum að hann sé búinn að ná sér að fullu og fái að glíma við Belgana.

Hægt verður að nálgast miðana hjá aðalstyrktaraðilum HSÍ, Kaupþing og N1. Hægt verður að fá miðana ókeypis í þremur útibíum Kaupþings og þremur útibúum N1.

Útibú Kaupþings þar sem hægt verður að nálgast miða eru útibúið í Kringlunni, útibúið á Hlemmi og á Suðurlandsbraut við Hótel Hilton. Þær þjónustustöðvar N1 sem hægt verður að nálgast miða hjá eru N1 á Ártúnshöfða, Hringbraut og í Fossvogi.

Miðarnir verða allir gefnir á miðvikudaginn, leikdag, milli klukkan 09:00 og 16:00. Vert er að taka fram að ekki er selt í númeruð sæti en stúkunni er skipt í efri og neðri hluta.
 
Eins og fyrr segir er þetta fyrsti leikur Íslands í undanriðlinum fyrir EM 2010 sem leikið verður í Austurríki, en einnig er þetta fyrsti landsleikurinn eftir úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Peking þar sem strákarnir biðu lægri hlut gegn Frökkum og enduðu í 2.sæti.
 
Við hvetjum fólk til að næla sér í miða og hvetja strákana áfram enda eiga þeir lítið annað skilið.