Frábær sigur á Keflavík

Eins og birtist á samfélagsmiðlum í gær kom það skýrt fram að Haukar höfðu ekki unnið í Keflavík í 15 ár. Það breyttist í gær þegar Haukar sigruðu 81-90 og jöfnuðu Njarðvíkinga af stigum í 4.-5. sæti deildarinnar. Það er einnig merkileg staðreynd að fyrir 15 árum var það einmitt Ívar Ásgrímsson sem þjálfaði Haukaliðið líkt og nú.

Leikurinn var jafn framan af og var mestur munur á liðnum átta stig skömmu fyrir fyrri hálfleik þegar Haukar leiddu 34-42. Keflavík náði sér þá á strik og skoraði næstu níu stig og komst yfir 43-42. Jafnt var í fyrri hálfleik 46-46.

Keflavík eignaði sér þriðja leikhluta en á sama tíma voru aðgerðir Hauka ekki mikið til að hrópa húrra yfir. Keflavík náði mest 12 stiga forskoti í leikhlutanum en Haukar náðu að rétta örlítið úr kútnum fyrir lok leikhlutans. Það var svo ekki langt liðið á fjórða leikhluta þegar Haukar voru búnir að jafna leikinn og það sem eftir lifði leiks var spennan í hámarki. Þétt vörn Hauka undir lok leiks ásamt tveimur þriggja stiga skotum frá Hauki Óskarssyni og Kára Jónssyni var það sem kláraði leikinn og Haukar bundu svo endalega um hnútana á vítalínunni.

Terrence Watson var í háloftagírnum í leiknum og tróð hann knettinum trekk í trekk ofan í körfu heimamanna en hann endaði leikinn með 28 stig og 18 fráköst. Haukur Óskarsson virðist finna sig vel á móti Keflavík en hann smellti niður 26 stigum. (í fyrri leiknum gegn Keflavík var Haukur með 32 stig). Emil Barja bætti svo en einni þrennunni í safnið þegar hann skoraði 12 stig, tók 10 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Frábært var að sjá hvernig þeir stuðningsmenn Hauka sem mættu á leikinn eignuðu sér pallana og gaf þetta liðinu byr undir báða vængi undir lok leiks. Það er ekki ónýtt að eiga svona frábæran hóp stuðningsmanna á útivelli.

Tölfræði leiksins

Tengdar fréttir:
Haukar ekki unnið í Keflavík í 15 ár
15 ára þrautagöngu lokið
Þrennuvaktin
Keflavík tapaði og Valur féll
Haukar annað liðið til að vinna Keflavík í vetur