Frábær sigur á FH í gærkvöld

HaukarStrákarnir okkar unnu góðan sigur á FH í toppslag N1-deildarinnar í handbolta í Krikanum í gærkvöldi. Leikurinn fór rólega af stað og var jafnræði með liðunum allan fyrri hálfleik. Greinilegt var að mikið stress var í báðum liðum því mistökin í fyrri hálfeik voru gríðarlega mörg, mun fleiri en menn eiga að venjast frá þessum liðum. Sóknarleikurinn var ekki góður hjá okkar mönnum frekar en hjá FH en varnarleikur beggja liða og markvarsla var eins og best verður á kosið. Hálfleikstölurnar 8-7 fyrir FH segja í raun alla söguna um hversu illa liðunum gekk að skora.

Í síðari hálfleik blés ekki byrlega til að byrja með hjá okkur því FH skoraði tvö fyrstu mörk hálfleiksins og náði þriggja marka forystu sem hélst þar til í stöðuni 13-10 þegar um það bil 20 mínútur lifðu leiks. Þegar þarna var komið við sögu tóku þeir rauðklæddu hins vegar öll völd á vellinum og jöfnuðu 13-13. Svarthvítir nágrannar okkar tóku þá smá fjörkipp og héldu í við drengina næstu mínútur eða þar til í stöðunni 15-15 þegar um 11 eða 12 mínútur lifðu leiks. Það sem eftir fylgdi er undirritaður hins vegar nánast viss um að var betra en í viltustu draumum Arons Kristjánssonar, okkar frábæra þjálfara, um þennan leik. FH skoraði nefnilega einungis eitt mark gegn sex mörkum okkar á þessum síðstu mínútum og er óhætt að segja að strákarnir hafi hreinlega farið á kostum á þessum leikkafla þar sem gjörsamlega allt gekk upp. Úr varð ljúfur sigur 21-16 og það á útivelli.

Varnarleikurinn var frábær allan leikinn en lengst um gekk brösulega í sóknarleiknum, hann lagaðist þó mikið í seinni hálfleik þar sem liðið skoraði tvöfalt fleiri mörk en það gerði í fyrri hálfleik. Erfitt er að taka einstaka menn út fyrir góða frammistöðu en Freyr Brynjarsson var mjög góður í vörninni og Gylfi Gylfason var drjúgur að vanda í sókninni og skoraði mörk á mikilvægum augnablikum. Þá átti Aron Rafn fína innkomu í markinu og varði oft og tíðum vel.

Mörk Hauka í leiknum: Gylfi Gylfason 8, Freyr Brynjarsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Nemanja Malovic 1, Heimir Óli Heimisson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1 og Árni Steinn Steinþórsson 1.