Fjörugur nágrannaslagur & Vel heppnað Pub Quiz

Haukar og FH mættust í Lengjubikar karla í gærkvöldi en leikið var Ásvöllum. Nágrannar okkar norðan megin við læk fóru með sigur af hólmi – lokatölur 1-3.

Steven Lennon kom FH í 1-0 á 18. mínútu úr vítaspyrnu sem mörgum fannst ansi harður dómur, sérstaklega okkur í Haukum þar sem fremur virtist um árekstur leikmanna að ræða heldur en brot og þar sem boltinn var nokkuð fjarri þeim leikmönnum sem lentu saman. En dómarinn dæmir og víti varð niðurstaðan sem Lennon skoraði úr af öryggi.

Okkar menn voru grimmir eftir að hafa fengið á sig mark og eftir góða pressu og tækifæri við mark FH leiddi það til þess að boltinn fór yfir marklínu nágranna okkar, af varnarmanni þeirra, aðeins tveimur mínutum síðar.

1-1 staðan eftir 20 mínútna leik og fjör á Ásvöllum. FH meira með boltann, án þess þó að skapa sér hættuleg færi fyrir utan góða aukaspyrnu Brandar Olsen sem Óskar varði í slá. Okkar menn að verjast vel.

Á 32. mínútu leiksins átti FH góða sókn sem endaði með því að Björn Daníel Sverrisson átti mjög gott skot af ca. 25 metra færi, stöngin inn.

Staðan í hálfleik, 1-2.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega en FH var þó meira með boltann. FH fékk svo sitt annað víti í leiknum á 61 mínútu og aftur fór Lennon á punktinn og skoraði. Fram að þessu hafði verið lítið um færi og leikurinn í nokkru jafnvægi.

Töluvert var um skiptingar í seinni hálfleik og t.a.m. fengu strákar úr 2. flokki Hauka tækifæri og stóðu sig vel.

Eftir leik var haldið vel heppnað Pub Quiz í veislusal Hauka þar sem þemað var Haukar og FH. Darri Johansen, fyrrum leikmaður meistaraflokks Hauka, var spyrill og stjórnaði hann af mikilli festu en Ellert Ingi Hafsteinsson, stjórnarmaður í Haukum, samdi spurningar.

Við þökkum leikmönnum og stuðningsmönnum FH fyrir komuna á Ásvelli.

Næsti leikur okkar drengja í Lengjubikarnum er á mánudaginn, 11. mars, en þá kemur Breiðblik í heimsókn á Ásvelli. Hefst leikurinn klukkan 18.00.

Áfram Haukar!

Ljósmyndir að neðan úr leiknum: Hafliði Breiðfjörð – Fótbolti.net