Fimmta umferð Hellismótsins.

Eftir fimmtu umferð eru línurnar farnar að skýrast í Meistaramóti Hellis. Sigurður Daði Sigfússon, Björn Þorfinnsson og Davíð Kjartansson eru efstir og jafnir með fjóra vinninga.

Haukamönnum gekk ekki vel í gær. Stefán Freyr Guðmundssonstýrði hvítu mönnunum á móti Davíð Kjartanssyni. Stefán Freyr fórnaði skiptamun snemma í skákinni. Davíð náði hinsvegar á undraverðan hátt að verjast. Davíð herti síðan tökin á Stefáni og var sigurinn sannfærandi.

Ingi Tandri Traustason var með hvítt gegn hinum unga og efnilega skákmanni Gylfa Davíðssyni. Eftir byrjunarleikina kom upp afar róleg staða. Í lok skákarinnar fór þó að rofa til og endataflið varð æsispennandi þar sem Ingi og Gylfi skiptust á um að eiga sigurinn vísann. úrslit skákarinnar voru þó í takt við gang skákarinnar og útkoman varð Jafntefli.

Sveinn Arnarsson(svart) tefldi við Margréti Jónu Gestsdóttur. Ítölsk byrjun var tefld og tefldi Sveinn aðeins upp á sigur og hóf stórsókn að kóngsstöðu Margrétar. Eftir skemmtilega og harða sókn þurfti Margrét að láta Drottningu sína fyrir riddara og varð eftirleikurinn aðeins handavinna.

Stefán Freyr og Sveinn eru með 3 vinninga af fimm mögulegum. Ingi Tandri er með 2,5 vinninga. Næsta umferð verður tefld mánudaginn 23. febrúar.

Sveinn Arnarsson