Fótbolti karla á Ásvöllum í kvöld, Haukar – ÍR

Magnús GylfasonHaukar taka á móti ÍR í 1. deild karla í kvöld, miðvikudag, og hefst leikurinn klukkan 20:00. Eins og venjan er þegar Haukar taka á móti liðum verður leikurinn leikinn á gervigrasinu að Ásvöllum. Veðráttan lék ekki við margan Íslendinginn á höfuðborgasvæðinu í gær en það mun ekki hafa áhrif á iðagrænan völlinn okkar að Ásvöllum.

Haukar eru í 3. sæti deildarinnar með 21 stig en ÍR-ingar í því 6. með 15 stig. Í fyrri umferðinni unnu Haukar ÍR á útivelli 1-3, eftir að hafa lent undir snemma leiks. Hilmar Rafn Emilsson skoraði tvö mörk og Ásgeir Þór Ingólfsson innsiglaði sigurinn í lokin.

Haukar gerðu 0-0 jafntefli í síðustu umferð gegn BÍ/Bolungarvík á Ísafirði. Í þeim leik vantaði marga byrjunarliðsmenn og meiddust tveir leikmenn Hauka strax í fyrri hálfleik. Hinsvegar hafa þeir leikmenn sem ekki voru með í síðasta leik komið til baka og má búast við nokkru breyttu liði Hauka gegn ÍR í kvöld.

Leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur fyrir Hauka því með sigri verðum við einungis fjórum stigum á eftir Selfyssingum sem eru í 2. sæti en þeir töpuðu í gærkvöldi 1-2 gegn Skagamönnum, þrátt fyrir að vera manni fleiri í 70 mínútur.

Allir á völlinn – ÁFRAM HAUKAR!