Evrópukeppnin

Bæði mfl.kvenna og mfl.karla eru nú erlendis og spila í Evrópukeppni um helgina.

Stelpurnar okkar héldu til Ítalíu í morgun og spila síðari leik sinn við Pelplast á laugardaginn kl. 17:00 að ísl. tíma (kl. 19:00 að staðartíma). Eins og allir muna, þá unnu Haukar fyrri leikinn 38-19 á Ásvöllum um s.l. helgi og eiga stelpurnar okkar því mjög góða möguleika að komast í aðra umferð.

Strákarnir okkar héldu utan til Lúxemborgar á miðvikudagsmorgun en þeir spila báða leikina við H.C. Bercham í Lux um helgina. Fyrri leikurinn verður á föstudag kl. 18:00 (kl. 20:00 að staðartíma) og síðari leikurinn á laugardag kl. 18:30 að ísl.tíma (kl. 20:30 að staðartíma). Handbolti í Lúxemborg er ekki hátt skrifaður og teljum við að möguleikar strákanna á að komast í Meistaradeildina séu ansi góðir.

Við hvetjum alla til að senda báðum liðunum okkar sterka Haukastrauma yfir hafið. Við vitum jú að enginn leikur er unninn fyrirfram og liðin okkar þurfa á stuðningi okkar að halda þó langt sé á milli okkar.

ÁFRAM HAUKAR

Evrópukeppnin

Búið er að draga í forkeppni Meistaradeildarinnar. Strákarnir mæta belgíska liðinu Sporting Neerpelt. Fyrri leikurinn verður í Belgíu helgina 11./12. september og seinni leikurinn heima á Ásvöllum helgina 18./19. september.

Heimasíða liðsins er: {Tengill_26}

Evrópukeppnin

Eins og menn vita eru strákarnir okkar nú staddir í París og bíða spenntir eftir morgundeginum og leiknum við franska liðið US Créteil. Þetta er fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum í Evrópukeppni bikarhafa. Seinni leikurinn verður á Ásvöllum sunnudaginn 21. des. kl. 20:00.
Lið Créteil er í 3.sæti í frönsku deildinni með 30 stig en Montpellier er efst með 33 stig. Leikurinn á morgun verður án efa mjög erfiður, en strákarnir okkar eru hvergi bangnir og ætla sér ekkert annað en sigur.
Leikurinn er kl. 16:00 að frönskum tíma eða kl. 15:00 að íslenskum tíma. Við verðum með fréttir af stöðu í leiknum hér á heimasíðunni. Fylgist með og sendið strákunum okkar styrk og góða strauma yfir hafið.

Heimasíða US Créteil {Tengill_23}

Evrópukeppnin

Nú styttist í að strákarnir okkar leggi af stað í langt og strangt ferðalag til Ítalíu í leikinn við Conversano í Evrópukeppninni.

Upp úr klukkan fimm í nótt, þegar við erum enn í draumaheimi, leggja þeir af stað upp á Ásvelli og halda þaðan til Keflavíkur. Þeir fljúga til Parísar og lenda þar um hádegi að staðartíma og verða að bíða fram á kvöld eftir flugi til Napolí. Eitthvað ættu þeir að finna sér til dundurs í París, gætu t.d. kíkt upp í Effelturninn, skoðað Sigurbogann, fengið sér eitthvað gott í gogginn og líka setið fastir í umferðarhnút í miðri borg. Flugið frá París er kl. 20.30 og ættu þeir að vera komnir um kl. 23.00 til Napolí og lagðir af stað þaðan um miðnættið með rútu til Conversano og komnir þangað eftir 4 til 5 klst. akstur. Eftir sólarhringsferðalag ættu þeir loksins að verða komnir inná hótel.

Laugardagurinn fer svo væntanlega í svefn, æfingar og undirbúning fyrir leikinn sem er á sunnudaginn kl. 18.30 að staðartíma (kl. 17.30 að íslenskum tíma).

Að leik loknum á sunnudagskvöldið bíður þeirra svo aftur sama ferðalagið heim til Íslands.

Við Haukafélagar sendum strákunum okkar bestu óskir um góða ferð og gott gengi í leiknum og sendum að sjálfsögðu góða strauma yfir hafið.

Evrópukeppnin

Eins og fram kemur hér að framan fengum við spænska stórliðið Barcelona í næstu umferð Evrópukeppninnar. Fyrri leikurinn verður úti helgina 10. eða 11. nóv. og seinni leikurinn hér heima helgina 17. eða 18. nóv. Viggó gerði garðinn frægan á árum áður með Barcelona og þekkir vel hversu magnað þetta lið er. Barcelona er eitt af stærstu liðum heims og fá Haukastrákarnir frábært tækifæri að spila við þá bestu í heiminum. Ekki má heldur gleyma að liðsmenn Barcelona fá tækifæri að etja kappi við hetjurnur úr Hafnarfirði, þ.e. Haukana.Fram og HK eru einnig mætt til leiks í Evrópukeppninni. HK á heimaleik fyrst og tekur á móti portúgalska liðinu Porto og Framarar eiga fyrri leikinn úti og heimsækja Gunnari Berg og félaga í franska liðinu Paris St. Germain.

Evrópukeppnin

Í morgun/nótt kl. 6 fóru strákarnir frá Ásvöllum áleiðis til Póllands. Frá Keflavík var flogið til Kaupmannahafnar og um miðjan dag fljúgja þeir til Varsjá og fara síðan með rútu til Kielce sem er ca 180 km leið. Leikurinn við Kolporter er síðan á morgun sunnudag kl. 17.00 (kl. 15 að íslenskum tíma).