Drengjaflokkur: Strákarnir unnu Snæfell

Haukar unnu sinn þriðja leik í röð og sinn fyrsta heimasigur þegar þeir fengu Snæfell í heimsókn á Ásvelli um helgina. Lokatölur 90-80.

Haukastrákar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu 8 stig leiksins, þ. a. tvær þriggja stiga körfur frá Andra Freyssyni auk einnar körfu frá Guðmundi Sævarssyni. Haukar pressuðu nær allan leikinn en gekk ekkert sérstaklega vel að nýta dauðfærin, þá sérstaklega til að byrja með. Uni Jónsson átti sterka innkomu um miðbik fyrsta leikhluta, auk þess að spila fanta vörn þá skoraði hann 11 stig á tæpum 5 mínútum og var drifkrafturinn bakvið 29-13 forystu Hauka í leikhlutaskiptunum.

Munurinn hélst svipaður fram í annan leikhluta þrátt fyrir skotsýningu gestanna sem settu niður fjögur þriggjastiga skot úr fjórum tilraunum á fyrstu 5 mínútunum. Haukum gekk illa að að koma höndum á varnarfráköstin og má segja að sóknarfráköstin hafi haldið Snæfelli inni í leiknum þar sem munurinn var 15 stig þegar flautað var til leikhlés, 48-33.

Snæfell lá í svæðisvörn mestan hluta seinni hálfleiks og leystu Haukarnir það ágætlega en áttu þó í lítillegum vandræðum í vörninni. Haukamaðurinn Kristinn Marinósson naut sín vel gegn svæðisvörninni og setti niður fjórar þriggjastiga körfur en hinum megin skoraði Egill Egilsson 10 stig í leikhlutanum. Staðan fyrir fjórða leikhluta 74-56 fyrir Hauka.

Eitthvað misstu Haukarnir dampinn í lokaleikhlutanum, Snæfell átti ágætis atlögu að forystu Hauka og náðu muninum í 8 stig, 88-80, en heimamenn skoruðu lokakörfu leiksins og unnu öruggan 90-80 sigur.

Stig Hauka: Haukur 20, Kristinn 18, Andri 15, Uni 15, Emil 8, Ævar 6, Guðmundur Sævars 3, Guðmundur Darri 3.

Næsti leikur Hauka er útileikur þriðjudaginn 4. nóvember gegn Stjörnunni.

Mynd: Kristinn Marinósson var næst stigahæstur Haukamanna með 18 stig – Arnar Freyr Magnússon