Drengjaflokkur Íslandsmeistarar – uppgjör helgarinnar

Drengjaflokkur varð Íslandsmeistari um helginaLokahelgi KKÍ var haldin með pompi og prakti í Smáranum, Kópavogi, um helgina þar sem spilaðir voru úrslitaleikir yngri flokka, 9 fl. – unglingaflokks. Haukar áttu þrjá flokka sem voru að spila um þann stóra og sigraði drengjaflokkur sinn leik en 10. fl. stúlkna og unglingaflokkur kvenna lutu í lægra haldi fyrir Keflvíkingum.

Drengjaflokkur sigraði lið Tindastóls nokkuð örugglega og endaði leikurinn með 18 stiga sigri okkar drengja, 71-53. Haukastrákarnir leiddu nánast allan leikinn en voru þó nokkuð lengi í gang og eftir 5. mín. leik höfðu okkar strákar einungis skorað 1 stig, en Tindastóll var ekki mikið skarri á sínum sóknarhelmingi og hafði skorað 2 stig. Varnir beggja liða mjög sterkar, mikið um blokkuð skot hjá báðum liðum og dómarar leiksins leyfðu töluverða snertingu hjá báðum liðum en höfðu samt gríðarlega góð tök á leiknum.

 Tindastóll leiddi eftir fyrsta leikhluta með 13 stigum gegn 9 stigum Haukastráka.
Í II. leikhluta sýndu strákarnir af hverju þeir hafa verið besta liðið í drengjaflokki í allan vetur og sigruðu þann leikhluta með 10 stigum og skoruðu 24 stig í þeim leikhluta. Staðan í hálfleik því 33 – 27 fyrir Hauka. Kári Jóns og Jón Ólafur höfðu haldið uppi sóknarleik liðsins í fyrri hálfleik en varnarleikur liðsins var til fyrirmyndar og þar lögðu allir mikið á sig. Töluverður fjöldi Haukafólks var mættur á leikinn og voru nokkuð bjartsýnir í hálfleik þar sem strákar eins og Kristján Leifur, Hjálmar, Arnór og Bjössi höfðu verið frekar mistækir sóknarlega í fyrri hálfleik.
Haukastrákarnir héldu áfram að hamra járnið í III leikhluta og gáfu stólunum engin grið í vörninni sem varð til þess að Stólarnir skutu mikið fyrir utan og hittu þar afleitlega. Haukastrákarnir héldu áfram að spila vel og Kristján Leifur kom gríðarlega sterkur inn í síðari hálfleik og Kári og Jón Ólafur héldu áfram sínu hlutverki og unnu III. leikhluta með 9 stigum og voru komnir í mjög góð mál. IV. leikhluti hélt áfram mjög svipað og Haukastrákarnir héldu sínum hlut og unnu öruggan sigur og luku frábærum vetri með Íslandsmeistaratitli. Liðið varð deildarmeistari og fengu silfur í bikarnum.
Kári Jónsson var valinn verðskuldað „maður leiksins“ og spilaði gríðarlega vel og skoraði 33 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, sem skilaði 35 framlagsstigum.

Bikarmeistarar 10. fl. stúlkna spiluðu gegn Keflavík um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudeginum. Mikil eftirvænting var vegna þessa leik þar sem okkar stelpur höfðu unnið Keflavíkurstúlkur í síðustu tveim leikjum, þ.m.t. í úrslitum bikarsins. Því miður náðu stelpurnar sér aldrei á strik og Keflavík vann sanngjarnan sigur í þessum leik. Í hvert skipti sem Haukastelpurnar fengu tækifæri til að jafna leikinn þá gerðu þær afdrifarík mistök sem Keflvíkingar refsuðu grimmilega fyrir og þær héldu Haukum alltaf í 5-9 stigum á undan sér og Haukastúlkunum vantaði baráttu og vilja til að ná setja pressu á andstæðinginn. Keflavíkk vann leikinn 54-48 og óskum við Keflvíkingum til hamingju með sigurinn.

Unglingaflokkur kvenna spilaði svo síðar um daginn einnig við Keflavíkurstúlkur. Það sama var uppi á teningnum í þessum leik og hjá 10. flokki. Haukastelpurnar sem voru vel mannaðar náðu sér aldrei á strik og spiluðu mjög slakan leik, bæði í sókn og vörn. Keflavík leiddi allan leikinn en samt var munurinn aldrei það mikill, 3-10 stig allan leikinn. Haukastelpurnar voru andlausar og hittu illa úr opnum skotum og voru staðar í sínum aðgerðum. Lykilmenn náðu sér ekki á strik og því fór sem fór. Keflavíkurstúlkur unnu sanngjarnan 6 stiga sigur, 58 – 52 og óskum við Keflvíkingum til hamingju með sigurinn en þeir áttu frábæra úrslitahelgi með 5 Íslandsmeistaratitla.

Veturinn hefur verið mjög góður hjá Haukum. 4 lið spiluðu til úrslita um Bikarmeistaratitil og þrjú lið til úrslita um Íslandsmeistaratitil. Niðurstaðan 1. bikarmeistaratitill og 1 Íslandsmeistarartitill. Fullt af landsliðskrökkum og framtíðin er mjög björt.