Dautt jafntefli

Meistaraflokkur kvenna lék sinn fjórða leik í 1. deild kvenna A riðli. Leikurinn var á móti Þrótti Rvk og var leikinn þriðjudaginn 13. júní á Ásvöllum. Það var ágætur fjöldi af áhorfendum sem kom á leikinn enda nokkuð gott veður til að iðka knattspyrnu.

Byrjunarlið Hauka var það sama og í bikarleiknum á móti Ægi. Jelena var í markinu, fyrir framan hana voru Saga, Fríða, Allý og Margrét. Á miðjunni voru Björk, Þórdís, Chris og Björg og í fremstu víglínu voru Alexandra og Linda en hún var jafnframt fyrirliði.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega því strax á fyrstu sekúndunum var Alexandra komin ein inn í gegn og skaut svo á markið en skotið fór beint í Elsu Hlín Einarsdóttur markmann Þróttar. Kolbrún Steinþórsdóttir leikmaður Þróttar átti ágæta tilraun á 3. mínútu þegar skot hennar fór í stöng. Ekkert gerðist fyrr en á 13. mínútu en þá átti Alexandra góða fyrirgjöf á Björgu en skallinn frá henni fór rétt yfir.

Á 21. mínútu slapp Kolbrún Steinþórsdóttir ein inn í gegn eftir að hafa leikið á nokkrar Hauka stelpur en svo var Björg komin í vörnina og náði að bjarga í horn. Sendingin úr horninu fór beint á kollinn á einn Þróttara en skallinn fór rétt yfir. Fátt markvert gerðist á þeim mínútum sem eftir voru af fyrri hálfleik.

Í hálfleik gerðu Haukar tvöfalda breytingu á liði sínu en þá fóru Chris og Þórdís út en Ásdís og Dagbjört inn. Á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks skiptust liðin á að sækja án þess að skapa sér almennileg marktækifæri en annars voru þessar mínútur mjög daufar og lítið að gerast.

Á 64. mínútu gerðu Haukar sína 3 breytingu á liði sínu en þá fór Linda út og Tanja Harju inn. Kolbrún Steinþórsdóttir var enn eina ferðina komin í hættulegt færi en á 72. mínútu fékk hún boltann í miðjum vítateig Hauka og lék á einn varnarmann Hauka og skaut síðan á markið en Jelena varði vel. Á 80. mínútu fór síðasti varamaður Hauka inn á völlinn en það var Svava en Björk fór út.

Fríða fékk gult spjald á 84. mínútu fyrir að brjóta niður skyndisókn Þróttar. Svava átti góða fyrirgjöf á 87. mínútu og fyrirgjöfin fór á Tönju sem var ein á auðum sjó en hitti ekki boltannn. Haukar fengu aukaspyrnu á 90. mínútu en þá var brotið á Svövu rétt við vítateig Þróttar. Allý tók aukaspyrnuna en spyrnan fór rétt framhjá.

Leikurinn var tilþrifalítill en þó fjörlegur á fyrstu mínútunum og í Haukaliðinu var eiginlega enginn sem skaraði fram úr. Myndir úr leikmun má sjá á heimasíðu Hauka www.haukar.is/fotbolti síðan er farið í myndir. Næsti leikur Hauka er á móti GRV á Grindavíkurvelli þriðjudaginn 20. júní. Áfram Haukar!!!