Dautt jafntefli í þokunni á Ásvöllum.

1. deild karla. Ásvellir 24. júlí 2005.

Lið Hauka

Jörundur –

Pétur, Óli Jón, Daníel, Geoff –

Hilmar Geir, Hilmar T., Kristján Ómar, Edilon –

Hilmar Emils, Þorvaldur.

Þeir Rodney og Ómar Karl tóku út 1 leiks bann vegna of margra gulra spjalda að þessu sinni og tóku því ekki þátt í leiknum á sunnudag.

Leikurinn byrjaði fjörlega því að í tvígang komst HK maður inn fyrir vörn Hauka eftir stungusendingu á fyrstu mínútum leiksins. Í bæði skiptin leit út fyrir að um klárlega rangstöðu væri að ræða en línuvörðurinn virtist eitthvað slappur í fánahendi sinni í bæði skiptin. Í fyrra skiptið náði Óli Jón að redda málunum er hann renndi sér laglega fyrir sóknarmann HK og hamlaði með því framgöngu hans og kom þannig í veg fyrir að illa færi. Í seinna skiptið kom stunga upp vinstra meginn á sóknarmann HK sem sendi svo lágan bolta fyrir markið. En sem betur fer var enginn til að taka við þeirri sendingu.

Í lok hálfleiksins átti svo Þorvaldur gott skot að marki gestanna en Gunnleifur markvörður HK átti ekki í vandræðum með það.

Gríðarlega lítið var um marktækifæri í síðari hálfleiknum. Hvorugt liðið gerði sig líklega til þess að ná að koma einu inn. Lang besta færi Hauka í leiknum fékk Þorvaldur Már á 79. mínútu en skot hans af stuttu færi flaug mjög langt frá HK markinu.

Lokatölur 0-0 í mjög svo bragðdaufum leik á Ásvöllum. Mæting á völlinn var fín, þó svo að ekki hafi verið mannmergð er leikurinn var flautaður á. En í lok leiks var orðið dável skipað í brekkunni og þar í kring.

Hefði verið mjög mikilvægt að krækja í 3 stig hér í dag en allt kom fyrir ekki. Sem stendur sitjum við Haukamenn í 6. sæti deildarinnar, en hafa ber þó í huga að við erum aðeins 2 stigum frá fallsæti og nokkrir erfiðir útileikir eru á næstunni. Þar á meðal tveir á Akureyrarvelli.