Dagrún Birta, Katrín Hanna og Regielly semja við knattspyrnudeild Hauka

Knattspyrnudeild Hauka skrifaði í kvöld undir samninga við þær Dagrúnu Birtu Karlsdóttur og Katrínu Hönnu Hauksdóttur sem eru báðar uppaldar hjá félaginu og Regielly Oliveira Rodrigues sem kemur frá Sindra.

Dagrún Birta er 18 ára gömul og  á að baki 17 leiki með meistaraflokkum Hauka og Augnabliks en hún spilar jafnan sem varnarmaður.

Katrín Hanna er 17 ára gömul og hefur hún spilað 22 leiki með Haukum og Álftanesi í meistaraflokki. Katrín, sem er markvörður, á að baki 8 landsleiki með U17.

Regielly er 17 ára gömul og á að baki 26 leiki með meistaraflokki Sindra en hún spilar sem miðjumaður.

,,Það er mikið ánægjuefni að Dagrún og Katrín skuli skuldbinda sig því verkefni sem framundan er hjá okkur í Haukum. Báðar eru þær efnilegar og hluti af framtíðaráætlunum félagsins. Dagrún er sterkur varnarmaður með góðan leikskilning en hún getur einnig leyst fleiri stöður á vellinum. Katrín er efnilegur markvörður með góða tækni. Regielly eða Leli eins og hún er kölluð er góður liðsstyrkur og við fögnum komu hennar. Leli er tæknilega góður leikmaður með gott auga fyrir spili,“ segir Jakob Leó Bjarnason, þjálfari meistaraflokks kvenna.

Knattspyrnudeild Hauka fagnar endurnýjun samninga við þær Dagrúnu og Katrínu og býður Leli innilega velkomna í Hauka-fjölskylduna.

Jakob Leó, Leli, Dagrún og Katrín við undirskrft samninga í kvöld á Ásvöllum.