Boðsmót Hauka 2.umferð

Boðsmót Hauka 2.umferð

2.umferð í boðsmótinu fór fram 15.apríl síðastliðinn. Þó flest úrslit væru eftir bókinni, þá var mikið um skemmtilegar skákir og C-Riðillinn opnaðist upp á gátt með 2 jafnteflum. Því er ljóst að spennan verður mikil allt til loka.

Í A-riðli voru aðeins tvær skákir tefldar, þar sem mesta efni Hauka, Sverrir Þorgeirsson, var í útlöndum. Það virðist sem hann sé í mikilli framför þessa dagana og það verður gaman að fylgjast með honum á næstunni. Andstæðingur hans Halldór Gunnar Haraldsson hefur því lent í þeirri leiðinlegu aðstöðu að þurfa að fresta báðum skákum sínum.
Skákirnar sem fram fóru voru báðar mjög spennandi, en svo fór að Árni Þorvaldsson vann Guðmund Guðmundsson eftir að hafa verið í miklu tímahraki, en Árni virðist oft njóta sín best í slíkri stöðu. Sverrir Örn mætti greinilega mjög vel undirbúinn til leiks gegn Sigurbirni, en á endanum náði Sigurbjörn yfirhöndinni og sigraði eftir skemmtilega skák.

Staðan í A-Riðli:

Sigurbjörn 2
Árni 1,5
Sverrir Örn 1
Sverrir Þ 0,5+frestuð
Halldór 0+frestuð
Guðmundur 0

B-Riðillinn virðist ætla að verða sá minnst spennandi, hvað varðar baráttuna um að komast í A-flokkinn. Þó á Þorvarður eftir „erfitt prógram” og má ekki misstíga sig. Skákirnar þetta kvöld voru ekki allar jafngóðar. Ragnar lenti snemma í vandræðum á móti Þorvarði og gaf í vonlausri stöðu. Auðbergur virtist hafa meiri áhyggjur af öðrum hlutum en skákinni gegn Stefáni Frey, sem ætti þó að vera nægt áhyggjuefni. Stefán sigraði frekar örugglega, þó Auðbergur berðist hetjulega. Ingi vann snemma peð gegn Gísla, en lenti í miklum erfiðleikum með að vinna úr stöðunni. Svo fór þó á endanum að Ingi vann. Gísli er einn af mörgum skákmönnum Hauka sem er í mikilli framför og ef hann teflir jafn vel og hann hefur gert í fyrstu tveimur umferðunum, þá á hann eftir að ná í nokkra punkta.

Staðan í B-Riðli:

Stefán Freyr 2
Þorvarður 2
Ingi 1
Aðbergur 0,5
Ragnar 0,5
Gísli 0

Áður en dregið var í riðla í mótinu, var raðað í styrkleykaflokka. Raðað var eftir stigum, og má segja að ánægðustu mennirnir á svæðinu hefðu átt að vera Páll Sigurðsson og Heimir Ásgeirsson. Þeir enduðu í riðli þar sem stigamenn röðuðu aér allir neðst á sinn styrkleikaflokk. En þetta er ekki svo einfalt og það sást berlega í þessari umferð. Heimir stýrði svörtu mönnunum gegn Gísla Pétri og vann nokkuð örugglega, en þó það sé eflaust að verða hálfþreytt í þessari grein að hrósa mönnum í þessari, þá má ég til með að nefna það að Gísli hefur teflt við Pál og Heimi í fyrstu tveimur umferðunum og valdið þeim miklum vandræðum! Það er nokkuð sem reyndari skákmenn geta ekki, en þess má geta að Gísli mætti á sína fyrstu æfingu í Janúar. Einar Gunnar og Snorri tefldu spennandi skák þar sem sem Snorri átti líklega vinningsleið, en þeir sömdu um jafntefli. Daníel og Páll áttust við í æsispennandi skák sem lyktaði með jafntefli eftir miklar sviptingar. Svo virtist sem Daníel væri með betra tafl þegar hann ákvað að skipta upp á riddara og biskup fyrir jafnteflið. Ef úrslit verða eftir bókinni hér eftir í þessum riðli, þá verður umspil um sæti í flokkum (A,B,C) og þar verða tefldar 2 atskákir.

Staðan í C-Riðli

Heimir 2
Páll 1,5
Daníel 1,5
Einar 0,5
Snorri 0,5
Gísli 0

Dauðariðillinn, eða D-Riðillinn eins og hann er réttilega nefndur, var mjög spennandi þetta fimmtudagskvöld. Sveinn lenti snemma í erfiðleikum gegn íslandsmeistaranum í bridge, Sigurði Sverrissyni og gaf eftir mikla baráttu, þar sem Sigurður var peði yfir með 2 frípeð. Davíð hefði eflaust viljað lenda í öðrum riðli, og að byrja á byrja á því að tefla á móti Sigurði og svo Jóhanni Helga er ekkert grín! Jóhann vann næsta auðveldlega, en Davíð hefur sýnt það á æfingum, að hann getur velgt þeim sem hann á eftir undir uggum!! Stefán og Jón tefldu hörkuskák, þar sem Jón náði að sýna hæfni sýna að lokum og knýja fram sigur úr erfiðri stöðu. Stórkostlegur riðill þar sem allt getur gerst, þó að manni viðist sem að Jóhann og Sigurður séu bestir, þá á eiga þeir báðir eftir 3 erfiðar skákir. Jóhann við Stefán, Svein og Sigurð og Sigurður við Jón, Stefán og að sjálfsögðu Jóhann. Það verður gaman að fylgjast með framvindunni í mótinu og þá ekki síst í D-Riðlinum!

Staðan í D-Riðli

Jóhann 2
Sigurður 2
Jón 1
Stefán 1
Sveinn 0
Davíð 0