Bjarni og Jence eftir leik í gær

Jence Ann Rhoads var óstöðvandi í leiknum í gær - karfan.isHaukar.is setti sig í samband við Bjarna Magnússon og Jence Rhoads eftir að leik var lokið í Keflavík í gær þar sem að Haukar sópuðu Keflvíkingum í sumarfrí og unnu undanúrslitaeinvígið 3-0.

Jence Rhoads sagði að Haukaliðið hafði verið nokkuð stressað að mæta Keflvíkingum í undanúrslitum svona í ljósi þess að Keflvíkingar hafa verið fyrna sterkar í deildinni en það sýnir sig en og aftur að úrslitakeppnin er gjörsamlega nýtt mót og allt getur gerst.

„Ég held að fyrirfram vorum við örlítið stressaðar en eftir að fyrsti sigurinn, á þeirra heimavelli, var kominn í hús vorum við sannfærðar um að við myndum vinna einvígið,“ sagði Jence sem var óstöðvandi í leiknum í gær og skoraði 31 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Það var mikið þrefað eftir leik tvö að Keflavíkurstúlkur myndu nú aldeilis koma beittar til leiks og kreista fram sigur í Keflavík sér í lagi að leikur tvö var gífurlega jafn og spennandi. Sú varð ekki raunin og var uppgjöf þeirra algjör gegn sterku liði Hauka.

„Já ég held að enginn hafi búist við því að við myndum vinna hvað þá að sópa þeim út. Við áttum að vera lakara liðið í þessu einvígi en ég held að okkur hafi bara langað meira í sigurinn. Mér fannst við orku meiri, áhugasamari og höfðum einfaldlega meiri trú á verkefninu. Á meðan við spiluðum sem lið þá voru meira einstaklingsframtak í liði Keflavíkur,“ sagði Jence þegar hún var spurð að því hvort að það væri eitthvað sérstakt í liði Keflavíkur í gærkvöld sem að var öðru vísi en vanalega.

Eins og margoft hefur komið fram þá spiluðu Íris Sverrisdóttir og Guðrún Ámundadóttir ekki með vegna meiðsla og Jence sagði að það hafi eflt Haukaliðið og voru þær staðráðnar í því að vinna leikinn fyrir þær.

„Það er mjög erfitt að missa Írisi og Guðrúnu því að þær eru svo stór partur af bæði varnar og sóknarleik liðsins. Ég held að við höfum notað meiðsli þeirra sem hvatningu til að sigra í gær. Liðið er mjög samrýmt og við vildum skila sigri fyrir þær og sigurinn í kvöld var klárlega fyrir þær.“

„Mér er nokkuð sama hvort liðið, Njarðvík eða Snæfell, vinnur einvígið þeirra á milli. Persónulega væri ég alveg til í að sleppa við að keyra í rúma tvo tíma annan hvern dag vestur en burt frá því séð verðum við tilbúnar fyrir hvort liðið sem er, skiptir ekki máli,“ sagði Jence kímin að lokum.

Guðrún nánast barnabarn Egils Skallagrímssonar

Bjarni Magnússon þjálfari var sigurreifur eftir leikinn og sagði að þetta gæti vart verið betra og að það væru örugglega ekki margir sem að áttu von á því að Haukar myndu sópa Keflavík út úr einvíginu.

„Jú ég og Henning fórum saman og keyptum okkur alvöru verksmiðjukúst, 80cm kvikindi. Enda sást það í leiknum að þetta var svakalegur sópur,“ sagði Bjarni aðspurður hvort að hann hafi splæst í eina Húsasmiðjuferð en skipti svo yfir í örlítið alvarlegri tóna.

„Það voru örugglega ekki margir sem að áttu von á aðeins þriggja leikja seríu. Eins og þú segir þá hefur Keflavík verið að spila best allra í vetur, enda flestir, fyrir utan alvöru Hauka sem að spáðu Keflavík sigri. En við vissum líka að eftir leiki vetrarins að við vorum alls ekki með síðra lið en þær og svo gaf þessi sigur okkar á móti þeim í lok deildarkeppninnar okkur mikið sjálfstraust. Þannig að við fórum af fullum krafti í þessar seríu viss um að við gætum klárað dæmið sem við og gerðum með glæsibrag.“

Það var ljóst að leikmenn þyrftu að stíga upp í fjarveru Írisar og Guðrúnar en þó var enginn sem að kom Bjarna neitt sérstaklega á óvart.

„Nei get ekki sagt það, þetta eru allt svo flottir leikmenn í þessu liði að þrátt fyrir þessi forföll hjá Írisi og Guðrúnu að þá var ég viss um að liðið sem heild stigi upp og kláraði þetta.  Andinn og vinnusemin hjá hópnum er líka búinn að vera frábær síðustu vikur þannig að þetta var aldrei spurning. „

Að endingu gátum við ekki sleppt Bjarna án þess að fá að vita stöðuna á Guðrúnu Ámundadóttur og hvort að hann ætti einhvern óska mótherja í úrslita viðureigninni svona í ljósi þess að Haukar eiga ekki heimavallarréttindin.

„Staðan á Guðrúnu er sæmileg. Hún er í meðferð hjá Tinnu sjúkraþjálfaranum okkar og hittir sérfræðing á mánudaginn þannig að þá kemur það endanlega í ljós hvað sé að hrjá hana. En Guðrún er nánast barnabarn Egils Skallagrímssonar þannig að hún er alvöru nagli og ég er viss um að hún á eftir gera flotta hluti í úrslita seríunni.“

„Nei það er engin óska mótherji og já það er rétt með heimaleikjaréttinn, þar sem að við vorum síðasta liðið inn í úrslit þá eigum við ekki þennan rétt. Eins og var skrifað á netinu að þá erum við „undir hundar“ í þessari úrslitakeppni.“

„Ég veit það líka að stuðningsfólk Hauka á eftir að fjölmenna á útileikina, hvar sem þeir verða, þannig að okkur á eftir að líða eins og á heimavelli. Stuðningurinn í Keflavík í gær var algjör snilli, þannig að ef við fáum svona stuðning í næstu leikjum og jafnvel bætum aðeins í þá geta stórkostlegir hlutir gerst,“ sagði Bjarni að lokum og vildi í lokin hvetja alla til þess að mæta á þessa leiki sem framundan eru og styðja stelpurnar í baráttunni, því með góðum stuðningi stuðningsmanna geta góðir hlutir gerst.