Bjarni Magg: Vil ekki útiloka hvoruga frá frekari þátttöku

Bjarni Magnússon, þjálfari HaukaHaukasíðan setti sig í samband við Bjarna Magnússon þjálfara Haukakvenna eftir leik liðsins í gær en Haukar leiða einvígið gegn Keflavík 2-0 eftir frábæran sigur á Keflavík.

Bjarni var brattur og sagði að liðið væri komið í ákjósanlega stöðu en vildi ekki meina að sópurinn frægi væri kominn á loft. „Ég veit ekki alveg með þennan blessaða sóp, er ekki viss um að ég eigi einn slíkan, hann er allavega ekki kominn á loft.“

„Við erum alveg á jörðinni þótt staðan sé ákjósanleg og því allt tal um sópa ótímabær,“ sagði Bjarni og er staðráðin að Haukaliðið sæki sigur til Keflavíkur á morgun. „Við þurfum að vinna einn leik í viðbót og við ætlum að ná okkur í þann sigur á morgun í Keflavík, Við bíðum með allt sópatal þar til að sá sigur er kominn í hús.“

Haukar sýndu mikinn karakter í lok leiks í gær eftir að hafa misst bæði Írisi Sverrisdóttur og Guðrúnu Ámundadóttur meiddar af velli og voru sterkari aðilinn á vellinum. Bjarni sagði að mikilvægi leiksins hafi verið gífurleg og er ánægður með að aðrir leikmenn hafi stigið upp.

„Sigurinn í gær var mjög svo mikilvægur og eins og þú segir karakter sigur. Lentum í áföllum í leiknum, fyrst í fyrrahálfleik þegar Íris meiðir sig illa og svo þurfti Guðrún að yfirgefa völlinn í 4.leikhluta vegna meiðsla. En eins og hjá öðrum góðum liðum þegar leikmenn meiðast að þá þurfa aðrar að stíga upp og klára verkið og það gerðu stelpurnar svo sannarlega í gær. Þær geta verið stoltar af frammistöðunni, ég er það allavega svo sannarlega.“

 

„Það er því engin ástæða til annars fyrir okkur en að mæta fullar sjálfstrausts í leikinn á morgun í Keflavík og taka síðasta skrefið til að koma okkur í úrslitin. Vonandi að það mæti fullt af Hauka fólki á leikinn til að styðja stelpurnar, allur stuðningur skiptir svo miklum máli og svo eiga stelpurnar það svo sannarlega skilið.“


Íris Sverrisdóttir keyrð á börum af velli – tomasz@karfan.is

Þegar við spjölluðum við Bjarna þá var staðan á Írisi og Guðrúnu óljós en hann sagði að þær myndu hitta sérfræðinga í dag og fá nánari upplýsingar. Það er svo við þessu að bæta að Íris er komin í gips og Guðrún ætlar að sjá hvernig fóturinn er á æfingu í kvöld. Bjarni var hins vegar ekkert allt of bjartsýnn á að Íris myndi spila meira á þessari leiktíð en vonar það besta.

Það gefur auga leið að Haukaliðið veikist töluvert ef þessir sterku póstar eru ekki með og Bjarni sagði að liðið myndi alveg finna fyrir því að þær séu ekki með.

„Ég vil svo sem ekki útiloka hvoruga þeirra frá frekari þátttöku en auðvitað eigum við eftir að finna fyrir því ef þær detta út. Þær hafa verið í byrjunarliði í allan vetur og skilað frábærri vinnu bæði í vörn og sókn. Ég veit líka að við erum með öflugar stelpur í hópnum sem geta tekið að sér stærra hlutverk í liðinu og þær sýndu það svo sannarlega í gær. Þannig að ég sé, að því gefnu að Guðrún og Íris detti út, að allar hinir stígi upp, axli meiri ábyrgð, fari til Keflavíkur á morgun og ná í sigur,“ sagði Bjarni og vildi að lokum þakka stuðningsmönnum Hauka fyrir stuðninginn.

„Mig langar í lokin til að þakka því fólki sem gaf sér tíma til að koma á leikinn í gær og styðja okkur. Efa það ekki að þið hafið skemmt ykkur konunglega, stuðningurinn var allavega alveg frábær og vonandi að enn fleiri sjái sér fært á að mæta næst. Ég get lofað ykkur góðri skemmtun. Takk“


Guðrún Ámunda keyrir að körfu Keflavíkur – tomasz@karfan.is