Bikarveislan nálgast – Brynjólfur Snær í léttu spjalli

Brynjólfur Snær fagnar marki í vetur ásamt Einari Pétri. Mynd: Eva Björk

Brynjólfur Snær fagnar marki í vetur ásamt Einari Pétri. Mynd: Eva Björk

Eins og komið hefur fram áður þá verður mikið um að vera hjá meistaraflokkum Hauka í handbolta í þessari viku, þegar bæði karla og kvenna liðin taka bæði í þátt í Final 4 Coca-Cola bikarsins. Kvennaliðið ríður á vaðið á fimmtudaginn kl. 19:30 þegar þær mæta Gróttu og svo á föstudaginn mæta karlarnir mæta Val kl. 17:15 en báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni.

Í tilefni af þessum leikjum þá fékk heimasíðan hornamanninn Brynjólf Snæ Brynjólfsson í stutt spjall um leikinn og aðdraganda hans.

Nú er langt liðið á tímabilið hjá ykkur og staðan er þannig að þið eruð í 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistarar og komnir í Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takti við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?

“Já, ég er nokkuð sáttur með tímabilið það sem af er. Auðvitað sitja þessi 3 töp í deildinni svolítið í manni en það þýðir lítið að vera að pæla í þeim núna. Við viljum vera að berjast um alla titla sem í boði eru og því eru væntingarnar sem við höfum fyrir tímabilið í takt við stöðuna sem við erum í núna. Staðan er fín en allir stóru titlarnir eru eftir svo við þurfum að halda áfram að bæta okkar leik og sjá svo hvað við náum að uppskera í lok tímabils.”

Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?

“Bikarhelgin leggst bara mjög vel í mig og liðið. Við erum vel særðir eftir að hafa hent frá okkur unnum leik á móti ÍBV í undanúrslitum í fyrra. Við þrufum því að mæta rétt gíraðir og vel undirbúnir til leiks á föstudaginn. Ef það tekst er ég sannfærður um að okkur eigi eftir að ganga vel.”

Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er toppslagur gegn Val og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu og Haukar hafa unnið allar hingað til. Er ekki hægt að segja að Haukar séu með smá tak á Valsmönnum og skiptir það einhverju máli að hafa unnið allar þessar viðureignir þegar í undanúrslit bikarsins er komið?

“Jú, vissulega höfum við haft smá tak á Valsmönnum á tímabilinu. Ég held þó að það breyti litlu máli þegar í svona leik er komið. Bæði lið ætla sér að sigra leikinn og fyrri leikir liðanna skipta litlu sem engu máli.”

Hvernig leikur verður þetta? Má búast við að þessi leikur verði eins og deildarleikir liðanna eða er það öðruvísi þegar bikarúrslit eru í húfi?

“Leikurinn verður jafn og spennandi og ef til vill nokkuð harður. Þetta eru þau tvö lið sem hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni í vetur. Það verður því verkefni þjálfarana að finna lausnir á varnarleik andstæðingana. Það lið sem gerir það betur sigrar leikinn.”

Nú hafa Haukar farið nokkrum sinnum í úrslit bikarins og þar á meðal þú. Er sú reynsla ekki mikilvæg þegar að út í svona leik er komið?

“Það mögulega hjálpar aðeins. Reynsla hjálpar alltaf leikmönnum og gott að hafa upplifað hlutina áður. Ég held þó að liðin séu mjög álík hvað reynslu varðar og því held ég að það verði ekki það sem sker úr um sigurvegara.”

Það hlýtur að vera smá hungur í liðinu að gera vel í bikarnum þetta árið eftir að hafa unnið hann árið 2014 en svo dottið út í undanúrslitum á slæman hátt í fyrra?

“Já, að sjálfsögðu. Hungrið er svo sannarlega til staðar. Við þurfum að nýta leikinn í fyrra til góðs og læra af honum.“

Nú eruði í efsta sæti í deildinni og unnuð deidarbikarinn. Setur það ekki meiri pressu á ykkur?

“Ég held að pressan sé alltaf sú sama á okkur og þá á ég við bæði utanaðkomandi pressa og eins pressa sem við setjum á okkur sjálfa. Markmiðið hjá okkur er alltaf að vinna alla titla sem í boði eru. Þetta er því staða sem við viljum vera í og höfum unnið fyrir og því tel ég að þessi pressa sé bara jákvæður hlutur sem drífur liðið áfram.”

Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

“Já, ég vil bara hvetja Haukafólk sem og aðra að mæta á þessa veislu sem verður í boði í Laugardalshöllinni. Stelpurnar byrja á fimmtudaginn og svo eru við strákarnir á föstudaginn. Stefnan er sett á að vera með tvö lið í úrslitum á laugardaginn og til þess að það takist þurfum við góðan stuðning.”

Fyrir leikina verður mikið um að vera í Schenkerhöllinni en fyrir kvennaleikinn sem hefst 19:30 þá hefst fjörið í Schenkerhöllinni kl. 17.30 þar sem boðið verður upp á andlitsmálun og þess háttar og einnig getur fólk fengið sér léttar veitingar. Svo verður boðið upp á rútuferðir frá Schenkerhöllinni í Laugardalshöll kl. 18:30 og til baka að leik loknum.

Fyrir karlaleikinn sem hefst 17:15 verður það sama upp á teningnum en rúturnar fara kl. 16:15 í Laugardalshöllina og til baka að leik loknum.

Miðasala verður í Schenkerhöllinni alla daga fram að leik í afgreiðslunni. Einnig er hægt á nálgast miða á kvennaleikinn hér og svo á karlaleikinn má nálgast miða hér.

Mætum svo öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!