Bikarstemming á Ásvöllum

Það var fín bikarstemming í 16-liða úrslitum SS bikarsins á Ásvöllum í gærkvöldi.

Kvöldið hófst með leik Hauka2 gegn Bifröst. Okkar “öldnu” strákar byrjuðu leikinn af þvílíkum krafti að gestirnir vissu ekki hvaðan sig stóð veðrið. Staðan orðin 9-1 fljótt í byrjun leiks. Í hálfleik var 23-11 og lokatölur 44-27, glæsilegur sigur hjá Haukum2. Þeir sýndu oft á tíðum frábær tilþrif, þó svo stundum væri hugurinn farinn langt fram úr skrokknum, en hvað um það, þessir höfðingjar stóðu sig frábærlega og unnu sanngjarnan stórsigur.

Einar Jónsson var markahæstur með 9 mörk. Óskar Sig. með 8, Jason Ólafs og Gústi Bjarna 5 hvor. Óskar Ármanns, Sigurjón Bjarna, Ægir Sigurgeirs og Örvar Guðmunds allir með 3 mörk. Jóhann Kristins og Sigurjón Sigurðsson með 2 hvor, Jón Örn 1 mark og síðan Pétur V Guðna með ekkert mark en nokkrar tilraunir. Milli stanganna stóðu þeir Ragnar Ragnarsson og Bjarni Frostason (þó ekki báðir í einu).

Klukkan 20:30 var komið að leik Hauka og Fram. Þar höfðu strákarnir okkar betur og unnur öruggan sigur 33-26. Haukar skoruðu fyrstu tvö mörkin, Fram jafnaði 2-2 en eftir það höfðu strákarnir okkar forystuna. Í hálfleik var 18-10 og í byrjun síðari hálfleiks var munurinn fljótt 10 mörk 22-12 og varð mestur 11 mörk. Eftir það slökuðu okkar menn á en sigurinn var aldrei í hættu. Fram náði aldrei að minnka nema í 7 mörk.
Glæsilegur sigur hjá strákunum okkar og frábært hjá þeim að mæta svona vel stemmdir til leiks í ljós þess að leikurinn var í miðri viku á milli Evrópuleikja og hugurinn kannski aðeins á reiki í átt að Meistaradeildinni.

Úrslit kvöldsins þýða að bæði liðin, þ.e. Haukar og Haukar2 eru komin áfram í 8-liða úrslit SS-bikarsins. Glæsilegt !!