Bikarinn kominn heim

Í gær tóku strákarnir á móti liði Aftureldingar og var leikurinn síðasti heimaleikur strákanna í N1 deildinni í vetur.

Strákarnir okkar byrjuðu betur og náðu forustunni strax í upphafi. Strákarnir voru sterkari aðilinn allan fyrri hálfleikinn og virtust ætla að sigra leikinn örugglega. Í hálfleik var staðan 17-15 strákunum okkar í vil.

Gestirnir komu mun sterkari til leiks í byrjun síðari hálfleiks heldur en okkar strákar. Þeir náðu fljótlega þriggja marka forskoti 21-18 og héldu því í þó nokkurn tíma. En um miðjan hálfleikinn náðu strákarnir okkar aftur forystu og héldu henni út leikinn og sigruðu svo að lokum 32-29.

Eftir leikinn fengu svo strákarnir afhentan Íslandsmeistarabikarinn. Mikil fagnarlæti voru þegar bikarinn var afhentur og gaman á Ásvöllum, alveg eins og það á að vera! 🙂

ÁFRAM HAUKAR!!

Bikarinn kominn heim

Það fór sæluhrollur um margan Haukamanninn þegar leikmenn Hauka hlupu hönd í hönd inná völlin í upphafi leiks í gær. Þetta rifjaði upp góða sigurtíma og margir hugsuðu og vonuðu “þeir vinna – við förum með bikarinn heim í kvöld”

Strákarnir okkar mættu tilbúnir í slaginn, Bjarni Frosta varði fyrsta skot ÍR-inga og Ásgeir Örn skoraði fyrsta markið í sókninni. Hér var grunnurinn lagður, strákarnir létu forystuna aldrei af hendi, þó svo heimamann hafi jafnaði nokkrum sinnum í byrjun leiks, 3-3 og síðast 8-8. Eftir það átti ÍR í raun aldrei möguleika svo lengi sem okkar menn slökuðu ekki á. Haukarnir spiluðu frábæra vörn og áttu ÍR-ingar í mesta basli með að finna glufur og þá áttu þeir eftir að koma boltanum fram hjá flugmanninm. Sóknin var einnig frábær, mjög fjölbreytt og endalaust ný leikkerfi. Viggó hafði ráð við öllu sem ÍR-ingar reyndu og naut dyggrar aðstoðar Palla, sem ennþá er í síðbuxum. Erfitt er að taka út einn sem besta mann, strákarnir voru allir að spila nánast óaðfinnanlega. Liðsheildin var frábær og allir tilbúnir að fórna sér fyrir félagann. Niðurstaðan var glæsilegur sigur 25-33 og ÍSLANDSMEISTARATITILLINN heim á Ásvelli.

Við Haukar þökkum ÍR fyrir gott samstarf og góða og drengilega úrslitarimmu. Þeir geta vel við unað, silfur er aldeilis ekki slæmt og er það mikið meira en hin liðin í deildinni fengu. Það er samt alltaf sárt að tapa en þessir leikir fara í reynslubankann.

Við viljum í lokin þakka okkar frábæru áhorfendum fyrir þeirra dygga stuðning, þeir hafa farið á kostum í úrslitakeppninni. Trommuliðið sló ekki feilnótu og hvatti leikmenn og áhorfendur linnulaust. Stemmingin var frábær, sérstaklega á heimaleikjunum enda varla annað hægt með svona glæsilega umgjörð. Strákarnir í “delludeildinni” fóru á kostum, ljósashowið og kynning leikmanna í upphafi leiks var magnað að fylgjast með og músikin þegar tíminn var stopp hélt stemmingunni uppi. Kynning á markaskorun og fleiru meðan á leik stóð var glæsileg að vanda. Allir sem komu að framkvæmd leikjanna eiga þakkir skildar, eins og gæslan, dyravarslan, miðasalan, kústarnir og allir aðrir. Án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.

Þeir sem fá mestu þakkirnar eru auðvitað strákarnir okkar. Þeir sýndu okkur á glæsilegan hátt að Haukar eiga besta handknattleikslið landsins. Þeir eru bestir, þeir eru hetjurnar okkar, þeir komu með Dolluna heim, þeir eru Íslandsmeistarar 2003.
Til hamingju strákar, þið eruð mestir, bestir og flottastir.