Baráttan um sæti í úrslitakeppninni heldur áfram

Haukamenn á góðri stundu eftir sigur gegn HK nú á dögunumÁ morgun, sunnudag,  fá Haukastrákarnir Fram í heimsókn á Ásvelli og hefst leikurinn kl. 15.45. Þetta er lykilleikur fyrir bæði lið til að tryggja sig meðal þeirra fjögurra bestu og þar með sæti í úrslitakeppninni. Fyrir 19. umferðina (af 21.) eru Framarar í þriðja sæti með 21 stig en Haukar með 20 í því fjórða. Á hæla Hauka koma svo HK menn einnig með 20 stig. Valur, Afturelding og Selfoss reka svo lestina.
Ekkert af þessum þremur liðum, sem ekki eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina, er búið að leggja árar í  bát og hafa sýnt að þau geta unnið stig af öllum hinum fimm liðunum á góðum degi. Með þetta að leiðarljósi er ómögulegt að spá fyrir um hvaða lið mun að lokum verma fimmta sætið og missa af úrslitakeppninni. Það sem Haukar verða að gera er að einblína á hvern leik, undirbúa sig vel, og hala inn þessi sex stig sem eru í boði í þessum þremur síðustu umferðum.

Nýbakaðar vöfflur til sölu fyrir leik og í hálfleik. Tilvalið að mæta snemma og skoða sögusýninguna og gæða sér á vöfflum með sultu og rjóma.

Aðrir leikir í 18. umferð verða leiknir á mánudaginn 28. mars kl. 19.30. Þá fær m.a. HK lið Akureyrar í heimsókn. Atli Hilmars og strákarnir í liði Akueyrar hafa gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum, fyrst á móti Selfossi og síðan á móti Haukum. Nú munar fjórum stigum á Akureyri og FH og því er það fræðilega mögulegt að FH „steli“ deildarmeistaratitlinum af Akureyringum þannig að þeir hafa svo sannalega að einhverju að keppa í síðustu umferðunum. Vinni Akureyri HK á mánudaginn og FH tapar stigi á móti Selfossi eru Akureyringar orðnir deildarmeistarar.

Næstu þrír leikir Hauka í N1 deildinni:
* Haukar – Fram. Ásvellir, sunnudaginn 27. mars kl. 15.45.
* FH – Haukar. Kaplakriki, fimmtudaginn 31. mars kl. 19.30.
* Haukar – Valur. Ásvellir, fimmtudaginn 7. apríl kl. 19.30 (síðasti leikur Hauka í deildarkeppninni).

Haukastrákarnir hafa verið að spila vel í undanförnum leikjum og við viljum að sjálfsögðu sjá þá vinna góðan sigur á morgun á móti Fram, mætum á Ásvelli og hvetjum þá til sigurs.

Áfram Haukar!