Ballið byrjar í kvöld: Haukar mæta Fram í fyrsta úrslitaleiknum

Áhorfendur hafa verið frábærir hingað til í úrslitakeppninniHaukar mæta Fram í fyrsta úrslitaleik liðanna um sjálfan Íslandsmeistaratitil karla í handbolta í kvöld í Schenkerhöllinni á Ásvöllum kl.20.00. Þjár sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og eigum við Haukar heimaleikjaréttinn ef kemur til oddaleikja um titiinn, í öllu falli eiga Haukar tvo heimaleiki í einvíginu, sá þriðji gæti bæst við ef fimm úrslitaleiki þarf til að útkljá einvígið.

Bæði Haukar og Fram sigruðu andstæðinga sína 3-1 í leikjum talið í undanúrslitum. Við Haukar lögðum ÍR en Framarar unnu sigur á FH.

Framliðið endaði í þriðja sæti deildarinnar þetta árið en það segir í raun ekki mikla sögu um getu liðsins því það er feyki öflugt og var í baráttu við FH og ÍR um 2. sæti deildarinnar allt fram í síðustu umferðirnar þrátt fyrir mjög erfiða byrjun á Íslandsmótinu, sem að mestu má rekja til meiðsla lykilmanna. Nú hafa Framarar hins vegar safnað öllum sínum vopnum og liðið hefur sjálfsagt aldrei verið í betra standi en akkúrat nú.

Sömu sögu má í raun segja af Haukaliðinu, liðið vann deildina nokkuð sannfærandi eins og menn þekkja en sigurinn í deildinni má helst rekja til frábærrar spilamennsku liðsins fram að áramótum. Eftir áramót og fram að úrslitakeppni var liðið hins vegar ólíkt sjálfu sér og spiluðu þar gríðarlega mikil meiðsli lykilmanna inn í ásamt því að hugsanlega vantaði einhversskonar neista í liðið enda alltaf nokkuð ljóst að Deildarmeistartitillinn myndi enda á Ásvöllum. Nú eru hins vegar flestir í Haukaliðinu alheilir og hungrið er komið á ný enda stærsti titill ársins í boði.

Það er því óhætt að lofa hörku leik á Ásvöllum í kvöld, leiks sem við Haukar ætlum okkur að vinna en til þess að svo megi gerast þurfa strákarnir að eiga góðan leik og þar koma áhorfendur sterkir inn, góð hvatning áhorfenda skilar sér nefnilega nánast undantekningalaust í góðri spilamennsku liðsins á vellinum.

Áfram Haukar!